-8.2 C
Selfoss

Nýtt starfsnám á Suðurlandi – Vélvirkjun, rafvirkjun og háriðnir

Vinsælast

Eins og Sunnlendingar vita var nýtt verknámshús tekið í notkun við Fjölbrautaskóla Suðurlands í mars árið 2017. Með því gerbreyttist öll aðstaða til kennslu verknáms við skólann. Um leið var allur kennslubúnaðar endurnýjaður.

Síðastliðið haust var farið af stað með þriðja árið í málmiðnum og kennd vélvirkjun (annir 5 og 6) í framhaldi af grunnnámi málmiðna. Með þessum breytingum ljúka nemendur fullu námi í vélvirkjun við bestu aðstæður. Samningstími í vélvirkjun eru 48 vikur. Tölvuteikning er snar þáttur í náminu sem og nám í forritun CNC-rennibekkja og fræsara sem eru af fullkomnustu gerð. Þessi góða tækni gefur nemendum mun betri möguleika á góðum störfum að námi loknu.

Í gamla Hamri var grunndeild rafiðna í miklum þrengslum. Í nýja Hamri er öll aðstaða til fyrirmyndar. Tækjabúnaður hefur verið endurnýjaður og kemur það kennslunni vel. Í vetur hefur 10. bekkingum úr grunnskólum Árborgar boðist að taka valfag í rafmagnsdeildinni og mæta þeir einu sinni í viku. Þar hafa nemendur fengið góða kynningu á námi og viðfangsefnum í rafiðnum.

Á komandi skólaári verður í fyrsta skipti boðið upp á fullt nám í rafvirkjun við FSu. Nám í rafvirkjun tekur tvær annir til viðbótar við fjögurra anna nám í grunndeild. Mikil eftirvænting hefur ríkt eftir þessari framþróun og eru þeir sem lokið hafa grunnnámi hvattir til að sækja um framhaldsnámið og ljúka rafvirkjun. Samningstíminn í rafvirkjun er 48 vikur.

Í haust hófst kennsla í grunndeild háriðna og ljúka nemendurnir samtals þremur önnunum í desember árið 2018. Það hefur í för með sér að tekið verður inn í námið á ný á vorönn 2019.

Nám í háriðnum eru 5 annir í skóla og 72 vikur á samningi á stofu. Seinni hluta námsins þurfa nemendur að taka annað hvort í Tækniskólanum eða í VMA á Akureyri en þessir skólar kenna allt námið. Nemendum í 10. bekkjum grunnskóla Árborgar hafa haft sambærilegan möguleika á kynningu á háriðn og nefnt var hér að ofan í rafiðnum.

Fyrir fjórum árum fór af stað nám í Grunndeild ferða- og matvælagreina. Nemendurnir sem völdu það nám á sínum tíma vinna mörg við fögin sem námið er grunnur að, í störfum í matreiðslu, bakara, þjóni eða kjötiðnum. Næga vinnu hefur verið að hafa og er hægt að segja að nemendur hafi verið rifnir út úr skólanum til að nýta þau til starfa. Námið fór að hluta til fram úti í fyrirtækjunum og líkaði nemendum námið vel. Við vonum að okkur takist að keyra námið á hausti komandi en til þess þarf lágmarksfjölda nemenda. Við hvetjum nemendur sem hafa áhuga á ofantöldum greinum innan matvælagreina að íhuga vel nám á grunnbraut ferða- og matvælabraut.

Eins og lesendur sjá hefur hér verið stiklað á stóru í annars mjög svo fjölbreyttu námsframboði í FSu og eru allar nánari upplýsingar um annað nám og skólann að finna á vefnum www.fsu.is.

Opið er fyrir umsóknir nemenda til 31. maí en nemendur grunnskólanna geta sótt um til 8. júní.

Með skólakveðju,
Olga Lísa Garðarsdóttir skólameistari,
Björgvin E Björgvinsson áfangastjóri.

Nýjar fréttir