-8.2 C
Selfoss
Home Fréttir Við erum stolt af starfi okkar í Rangárþingi eystra

Við erum stolt af starfi okkar í Rangárþingi eystra

0
Við erum stolt af starfi okkar í Rangárþingi eystra
Lilja Einarsdóttir.
Benedikt Benediktsson.

Eitt er að tala annað að framkvæma. Árið 2014 lögðum við Framsóknarmenn og aðrir framfarasinnar í Rangárþingi eystra upp með metnaðarfullar hugmyndir. Úrslit kosninganna þá tryggðu okkur hreinan meirihluta og byr undir báða vængi. Afraksturinn er ótvíræður. Þann 1. maí sl. vígðum við glæsilega 1500 fermetra viðbyggingu við Hjúkrunar- og dvalarheimilið Kirkjuhvol. Endurnýjun húsnæðis þar sem Kaupfélag Rangæinga starfaði um áratugaskeið við Austurveg 4 er að ljúka, en þar opnaði nú í apríl glæsileg nútíma KRÓNU verslun eftir áralanga baráttu og er mikill ávinningur fyrir okkur íbúanna. Í húsinu mun einnig öll skrifstofustarfsemi sveitarfélagsins verða ásamt aðstöðu fyrir aðra fjölbreytta starfsemi. Einnig byggðum við og tókum í notkun nýja félagsmiðstöð fyrir unga fólkið okkar og hrundum af stað heilsueflingu fyrir eldri kynslóðina í okkar frábæru íþróttaaðstöðu. Bætt var við einni deild á Leikskólanum Örk og bjóðum við nú uppá vistun fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri. Vinna við lagningu ljósleiðara í dreifbýlinu er komin vel á veg og er áætlað að ljúka þeirri vinnu á árinu. Mjög mikil uppbygging er á svæðinu, ný íbúðasvæði hafa verið skipulögð og fleiri í ferli. Átak hefur verið gert í sorpflokkun og höfum við gríðarlegan hug á áframhaldandi framþróun í þeim málaflokki, enda mikill áhugi íbúanna til staðar.

Ársreikningur er ákveðinn mælikvarði á rekstur og framvindu sveitarfélags. Við erum stolt af ársreikningi okkar þar sem rekstrarniðurstaða er jákvæð um 126.2 milljónir samhliða miklum framkvæmdum. Skuldahlutfall sveitarsjóðs er mjög lágt á landsvísu eða 36% en í mjög mörgum sveitarfélögum er þetta hlutfall yfir 100% og jafnvel allt að 150%.

Það er mikil fólksfjölgun í sveitarfélaginu enda kappkostað að veita fjölbreytta nútímaþjónustu. Það er bæði gott að vera ungur og gott að eldast í Rangárþingi eystra. Við höfum verið með hreinan meirihluta s.l. tvö kjörtímabil og hvetjum kjósendur til þess að kynna sér til hlítar áframhaldandi stefnu og markmið okkar. Við leggjum stolt fram verk okkar á kjörtímabilinu og bjóðum íbúum Rangárþings eystra áfram krafta okkar til góðra verka á næsta kjörtímabili. Við erum traustsins verð – xB

Lilja Einarsdóttir, oddviti Framsóknarmanna og annarra framfarasinna í Rangárþingi eystra.
Benedikt Benediktsson, varaoddviti Framsóknarmanna og annarra framfarasinna í Rangárþingi eystra.