-1.6 C
Selfoss
Home Fréttir Hvaða þýðingu hefur uppbygging í miðbæ Selfoss?

Hvaða þýðingu hefur uppbygging í miðbæ Selfoss?

0
Hvaða þýðingu hefur uppbygging í miðbæ Selfoss?
Ásta Stefánsdóttir.

Sveitarfélagið Árborg hefur unnið að því að verða eftirsóttur áfangastaður í alfaraleið. Færsla Suðurlandsvegar mun eiga sér stað á næstu árum með nýrri brú rétt austan við bæinn. Því kann að fylgja sú hætta að hluti þeirrar umferðar sem við viljum í raun fá til okkar, fari framhjá.

Til mótvægis hefur t.d. verið byggt við Sundhöllina, Tryggvaskáli framleigður til veitingarekstrar, unnið með Vegagerðinni að framtíðarskipulagi Austurvegar, lagðir göngustígar víðsvegar um sveitarfélagið, unnið að „Verndarsvæði í byggð“ á Eyrarbakka með áherslu á sérkenni gömlu byggðarinnar og unnið að hönnun Sigtúnsgarðs. Allt eru þetta verkefni sem auka lífsgæði íbúa og eru atvinnulífi til góða.

Uppbygging á miðbæjarsvæðinu samræmist vinnu bæjaryfirvalda. Bjóða þarf afþreyingu, m.a. menningartengda, söfn og sýningar, og áhugaverða útivistarmöguleika, fjölbreytta veitingasölu og aðra verslun og þjónustu. Þessir þættir laða líka að nýja íbúa, enda vilja þeir fá afþreyingu og þjónustu í heimabyggð.

Allir fjórir flokkarnir sem eru í bæjarstjórn samþykktu vilyrði til handa Sigtúni Þróunarfélagi fyrir lóðum í miðbæ Selfoss til að unnt væri að vinna áfram að hugmynd um uppbyggingu með húsum í gömlum stíl. Hugmyndin hefur tekið þónokkrum breytingum á þeim árum sem vinnan hefur staðið yfir og verið tekið tillit til margra sjónarmiða og athugasemda sem komu frá íbúum.

Tekjur Árborgar af verkefninu munu felast í fasteignagjöldum af mannvirkjum, útsvari þeirra íbúa sem munu starfa á svæðinu, bæði á uppbyggingartíma sem getur skapað á annað hundrað störf, og til langframa, og útsvari íbúa sem munu búa í íbúðum á svæðinu. Framlag Sigtúns Þróunarfélags liggur í því að það annast og kostar gatnagerð og lagnavinnu, yfirborðsfrágang, gerð torga, stétta og bílastæða, greiðir lóðaleigu og afsalar öllum eignarlóðum sínum til sveitarfélagsins.

Allt tal um að lóðir séu gefnar einkaaðilum er úr lausu lofti gripið. Endurgjald það sem að framan greinir er hærra en nemur því sem fengist hefði með því að hefðbundna leiðin hefði verið farin, þar sem sveitarfélagið hefði lagt götur, torg og lagnir og tekið gatnagerðargjöld. Fjárhagsleg áhætta sveitarfélagsins er engin og það ber enga ábyrgð á fjármögnun verkefnisins, sem þegar liggur fyrir að hefur verið tryggð hvað varðar 1. áfanga.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.