3.4 C
Selfoss
Home Kosningar Bláskógabyggð Umhverfismál til framtíðar – Bláskógabyggð í blóma

Umhverfismál til framtíðar – Bláskógabyggð í blóma

0
Umhverfismál til framtíðar – Bláskógabyggð í blóma
Ragnhildur Sævarsdóttir.

Umhverfismál eru fleira en að gróðursetja tré og tína rusl. Allt í okkar daglega lífi hefur áhrif á umhverfi okkar og náttúru og samkvæmt því þurfa áherslur kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum að miðast. Mikilvægast er þó að íbúarnir sjálfir leggi sitt af mörkum og hagi lífi sínu þannig að ekki sé gengið á höfuðstól náttúrunnar. Þar gerir margt smátt eitt stórt. Einkabílinn má oft spara, ruslpóstinn má afþakka og umbúðir þurfa ekki alltaf að fylgja því sem keypt er.

Slíkt verður þó að haldast í hendur við annað, svo sem umhverfisbætur í byggð. Þau verkefni hafa á síðustu misserum setið á hakanum. Úr þessu mætti bæta að einhverju leyti með stofnun verkefnasjóðs þar sem íbúar gætu sótt um fjárhagslegan styrk til fegrunar umhverfisins. Slíkt frumkvæði er samfélaginu alltaf mikilvægt – og jafnframt er lýðræðislegt að veita fjármunum þangað sem íbúarnir vilja.

Útivera og göngur eru umhverfisvænn lífsmáti, en þá þurfa réttu aðstæðurnar að vera til staða. Sveitarstjórn getur ekki hvatt fólk til að ganga frekar í vinnuna í þéttbýlinu ef engir eru göngustígar né stéttir og blessuð börnin þurfa mörg hver að ganga á götunni á leið til skóla. Úr því þarf að bæta eins og Þ-listinn í Bláskógabyggð hyggst gera.

Nýlega fékk Umhverfinefnd Bláskógabyggðar ráðgjafafyrirtækið Björney til þess að greina og sundurliða umhverfismál hjá sveitarfélaginu. Þeirri greinarvinnu er brátt lokið og þegar niðurstöður liggja fyrir þarf að ákveða framhaldið. Hvar þurfum við að taka okkur á og hvað getum við gert betur? Sveitarstjórn þarf að marka sér stefnu í umhverfismálum og vera leiðandi. Allir þurfa að vera í sama takti – og til dæmis þarf sveitarfélagið að marka stefnu sem forstöðumenn stofnana þess svo fylgja eftir. Þar er tónninn gefinn og vitund almennings fyrir þessum málum vex.

Þ-listinn hlakkar til að vinna að umhverfismálum með íbúum Bláskógabyggðar.

 

Ragnhildur Sævarsdóttir skipar 6. sæti á Þ-listanum í Bláskógabyggð.