1.1 C
Selfoss
Home Kosningar Bláskógabyggð Matvæli, menning og miðhálendið

Matvæli, menning og miðhálendið

0
Matvæli, menning og miðhálendið
Guðrún Svanhvít Magnúsdóttir.

Matvælaframleiðsla í Bláskógabyggð er fjölbreytt og öflug. Gildir einu hvort um er að ræða framleiðslu bænda með hefðbundinn búskap eða garðyrkjubænda, gæði og heilnæmi framleiðslunnar eru mikil. Í samfélagi sem kennir sig við heilsueflingu, ættu stofnanir á vegum sveitarfélagsins að kappkosta að bjóða upp á íslensk matvæli og nýta það sem framleitt er heima í héraði eins og kostur er. Þannig stuðlar sveitarfélagið að aukinni umhverfisvernd, betri lýðheilsu og styður við fjölbreytta atvinnustarfsemi. Beint frá býli er besti kosturinn.

Menning
Menning er hverju samfélagi nauðsynleg og oftar en ekki verður menning til í kringum þá atvinnu sem stunduð er í samfélögum. Ég held það megi fullyrða að smalamennskur og réttardagar séu með stærri menningarviðburðum í Bláskógabyggð. Ógrynni sagna,vísna og kvæða hafa orðið til í fjallferðum og réttum og varðveita sögu sveitanna. Á réttardaginn sameinast íbúar sveitanna í gleði og söng, burtfluttir heimamenn kappkosta að komast heim í réttir og aðrir gestir skipta hundruðum. Samfélagið iðar af lífi.

Miðhálendið
Það er alveg ljóst að muni áform um miðhálendisþjóðgarð ná fram að ganga mun sú menning sem áður er lýst hverfa og atvinnugreinin sauðfjárbúskapur mun leggjast af í þeirri mynd sem nú er. Við stofnun miðhálendisþjóðgarðs mun skipulagsvald sveitarfélaga færast til ríkisins og gengið verður á nýtingarrétt heimamanna. Þeir sem telja sig hafa vit á því hvernig nýta eigi hálendið hafa talað skýrt um það að ekki eigi beita afrétti sem er á hinu svokallaða gosbelti, undir það falla flestir afréttir á Suðurlandi. Nýlegar fréttir af stjórnunarháttum Vatnajökulsþjóðgarðs styrkja mig enn frekar í þeirri trú að megintilgangur með stofnum miðhálendisþjóðgarðs sé að hrifsa völd af sveitarfélögum og skerða rétt íbúa til að hafa áhrif á sitt nærumhverfi, koma völdum í hendur fárra aðila. Það er eitt af megin verkefnum nýrrar sveitarstjórnar að tryggja áfram rétt íbúa til að ákveða sjálfir í hvernig samfélagi þeir vilja búa.

 

Guðrún Svanhvít Magnúsdóttir, skipar 4. sæti T-lista í Bláskógabyggð.