-3.2 C
Selfoss

Var byrjuð að skrifa bókina áður en ég vissi af

Vinsælast

Fyrir skömmu kom út glæsileg bók sem var gefin út í tilefni 70 ára afmælis Kvenfélags Selfoss. Sigrún Ásgeirsdóttir sem skrifaði bókina segir að það hafi átt sér nokkurra ára aðdragandi. Hugmyndin hafi orðið í rauninni til eftir 50 ára afmæli félagsins, en þá fékk kvenfélagið peningagjöf frá Selfossbæ og hjónunum Sigurði Inga og Arnfríði. Sigurður Ingi var oddviti og hafði haft mikil samskipti við kvenfélagið á þessum fyrstu árum sveitarfélagsins. Síðan var stofnaður sjóður sem hér Sögusjóður Kvenfélags Selfoss og farið að leggja árlega í hann upphæð. Sigrún segir að svo hafi líka verið farið af stað þá að taka viðtöl við elstu konurnar sem þær héldu að byggju yfir einhverri þekking um starf félagsins. Þannig varð til svolítið af upplýsingum og einnig safnaðist svolítill peningur.

Bréfa- og skjalasafn sem ég dáist að
„Þegar ég hætti að vinna, en ég var kennari í Vallaskóla, fór Guðrún Þóranna, sem þá var formaður kvenfélagsins og samkennari minn til margra ára, að tala um það hvort að ég vildi ekki bara gera þetta þ.e. að skrifa bókina. Hún hélt því svolítið á lofti. Svo var ég eiginlega byrjuð að skrifa bókina áður en ég vissi af. Ég byrjaði á þessu 2013, fyrir fimm árum, með því að safna efni. Fyrstu fundargerðarbækurnar eru úti á Héraðsskjalasafni. Ég sat þar lengi og skrifaði mikið upp úr þeim. Þær eru mjög vel gerðar og skýrar. Hér inn í kvenfélagsherberginu við Engjaveginn var seinni hlutinn af þessum fundargerðabókum þessara 70 ára. Einnig bréfa- og skjalasafn sem ég á ekki orð yfir að dást að. Frá fyrsta bréfi er möppunum rétt raðað og fylgiskjöl númeruð. Það er eins og konurnar hafi aldrei gert annað að halda bókhald eða reka stofnun. Það þurfti að fara í gegnum það allt saman og finna skemmtilega punkta. Það fundust alls konar bréf sem fóru á milli kvenfélagsins og oddvitanna og sveitarstjórnanna um ýmis þörf mál sem þær voru alltaf að knýja á um,“ segir Sigrún.

Höfðu mikil áhrif á sveitarfélagið
Sigrún segir að sér finnist að áhrifin af kvenfélaginu hljóti að hafa verið mikil. „Þær söfnuðu auðvitað mikið af peningum sem þær gáfu en þær voru líka alltaf að ýta á alls konar málefni. Fyrstu þrjú málefnin voru að það vantaði kirkju, það vantaði sjúkrahús og það voru engir leikvellir, ekki einu sinni róluvellir. Fólkið sem bjó hérna þá var ungt fólk með fullt af börnum. Þannig að það voru fyrstu verkefnin þ.e. að drífa í að búa til róluvelli. Svo var farið að berjast fyrir sjúkrahúsinu og lagt mikið púður í það. Það eru til bréf um það sem gengu á milli ýmissa aðila.“

Tíu kaflar og alls konar þemu
Bókinni er skipt þannig upp að hver kafli er tíu ár. Síðan er líka tekið saman efni í ýmis konar þemu, t.d. um Gamla sjúkrahúsið eins og það var kallað, Selfoss sjúkrahúsið við Austurveg. Einnig aftur þegar sjúkrahúsið var opnað á nýjum stað. Og svo er ýmislegt fleira sem er dregið þannig saman til þess að það sé auðvelt að finna það.

Kvenfélagið rak leikskólann í tíu ár
„Á öðrum áratug félagsins kom það upp að það vantaði leikskóla. Fyrst rak kvenfélagið leikskóla í gamla barnaskólanum í þrjá mánuði á sumrin og var það svo i fimm ár. Seinni hluta þess tímabils var byrjað að byggja húsið við Tryggvagötu sem hét nú síðast Glaðheimar. Þar hefur síðan verið alls konar starfsemi eins og háskólaútibú og skátaheimili. Það þekkja þetta hús flestir. Kvenfélagið átti 15% í húsinu sem það borgaði og hafði þar aðstöðu fyrir sitt starf í herbergi í nokkuð mörg ár,“ segir Sigrún.

„Það sem mér finnst magnaðast fyrir nútímafólk er að þegar átti að fara að opna þetta hús vorið 1968 kom bréf frá oddvitanum þar sem hann fór þess á leit að kvenfélagið ræki leikskólann líkt og það hafði gert í barnaskólanum. Það gerðu þær í tíu ár. Ráku leikskólann, sáu um allar fjárreiður og bókhald og réðu fólk í samstarfi við leikskólastjóra. Þetta gerðu sömu tvær konurnar nánast allan tímann. Svo var náttúrulega alls konar fjáröflun. Það sem var þekktast var þegar þær fóru að standa fyrir leikstarfsemi. Þær sýndu leikrit til að afla fjár fyrir sjúkrahúsið því það þurfti svo mikla peninga.“

Saga samtvinnuð sögu Selfossbæjar
Í bókinni er rakin 70 ára saga Kvenfélags Selfoss en hún tengist mjög Selfossbæ. Allt er samt séð út frá sjónarhóli kvenfélagsins þ.e gögnum þess, sem er auðvitað ákveðið sjónarhorn. „Ég held að það sé þarna ýmislegt sem er ekki annars staðar, sem fannst hér í gögnum og minnugar konur mundu. “

Öflugur útgáfuhópur
„Ég skrifaði bókina en við erum búnar að vera að vinna að útgáfunni síðan í haust nokkrar. Við héldum að við myndum vera svona tvo mánuði að því þ.e. að finna myndir í bókina, finna þá sem vildu styrkja okkur og finna prentsmiðju og semja við hana. Við vorum að þessu fram í febrúar. Í hópnum voru auk mín Guðrún Þóranna Jónsdóttir, Erna Sigurjónsdóttir og Guðfinna Ólafsdóttir. Við höfum verið að vinna í þessu meira og minna í allan vetur svona þrjá daga í viku,“ segir Sigrún að lokum.

Bókin er komin út og færst í Bókakaffinu á Selfossi. Þeir sem eru með nafnið skráð sitt í bókina geta sótt hana í Selið á Engjaveginum. Opið verður í Selinu mánudaga, miðvikudaga og föstudaga milli kl. 13:00 og kl. 15:00 og bækur seldar. Einnig er hægt að hafa samband við Guðrúnu Þórönnu í síma 863 0802, Guðfinnu í 847 1800, Ernu í 482 1491 og Sigrúnu í 482 1260 og nálgast eintak.

 

 

 

 

Nýjar fréttir