1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Mikilvægi ungs fólks

Mikilvægi ungs fólks

0
Mikilvægi ungs fólks
Gunnar E. Sigurbjörnsson.

„Hvernig fáum við unga fólkið aftur heim?“ er algeng spurning sem fólk á landsbyggðinni spyr sig þegar er verið að líta til framtíðarstefnu sveitarfélaga. Nokkrir þættir skipta meiru máli en aðrir og stuðla að því að ungt fólk komi frekar aftur „heim“. Í fyrsta lagi er tilfinningin að tilheyra grunnatriði í þessum efnum. Að ungt fólk hafi upplifað að þau tilheyri samfélaginu þegar þau voru að alast upp. Gott skóla- og tómstundastarf skiptir þar miklu máli og oft er það öfluga óformlega nám sem fram fer í frítímanum gríðarlega vanmetið. Í gegnum skipulagt tómstundastarf öðlast ungt fólk mikla menntun sem fylgir því ævilangt.

Annað atriði sem skiptir máli er að ungmennin upplifi að þau hafi áhrif á nærumhverfið. Því miður hefur ekki verið hefð hér á landi að leita til ungs fólk eftir þeirra skoðunum á málefnum samfélagsins. Þetta hefur verið að breytast til betri vegar á síðustu árum með tilkomu ungmennaráða en þó er langt í land. Ungmenni í efstu bekkjum grunnskóla og aðeins eldri hafa yfir mikilli þekkingu að ráða um nærumhverfi sitt sem er of sjaldan nýtt við stefnumótun í sveitarfélögum. Ef við skoðum t.d. málefni grunnskóla þá er staðreyndin sú að fulltrúar nemenda í skólaráðum eru illa nýttir og upplifun þeirra er að nemendur hafi lítil áhrif á skólastarfið. Þetta má yfirfæra á flest mál sveitarfélaga. Þó er, í fyrsta skipti, ungt fólk í undirbúningshópi fyrir byggingu nýs skóla í Árborg. Það er jákvætt skref en meira þarf til ef duga skal.

Ef ung manneskja upplifir að hún geti haft áhrif á samfélagið, að gengið hafi verið til móts við hana í skólum og tómstundum í æsku og að til staðar sé fjölbreytt atvinnulíf þá eru miklar líkur á að hún komi tilbaka full af eldmóði, nýrri þekkingu og kunnáttu og tilbúin til að efla nærsamfélagið.

Skilaboðin eru skýr; fjárfestum í unga fólkinu, hlustum á þau og búum til jarðveginn til að þau geti eflt samfélagið okkar í framtíðinni. Sveitarfélagið Árborg getur verið leiðandi í málefnum ungs fólks – ég og aðrir í Áfram Árborg viljum leggja okkar af mörkum til að það verði að veruleika.

 

Gunnar E. Sigurbjörnsson, skipar 5. sæti á lista Áfram Árborg í Sveitarfélaginu Árborg.