Bíóhúsið á Selfossi opnaði eftir breytingar fimmtudaginn 26. apríl sl. með frumsýningu á stórmyndinni Avengers Infinity War. Nýir rekstraraðilar eru Marinó Lilliendahl og Kristján Bergsteinsson ásamt Hótel Selfossi.
Undanfarið hafa innviðir og umhverfi bíósins verið endurnýjað og er stefnt að því að kaupa ný og fullkomnari sýningartæki í sal 1. Jafnframt verða sýningartæki í sal 1 færð í sal 2 og hann tekinn í gagnið. Þá er fyrirhugað að setja ný og betri sæti í bíóið síðar á árinu.
Nýr og fullkominn ráðstefnubúnaður verður settur upp í bíósölunum innan tíðar og er stefnt að því að þjónusta gesti Hótels Selfoss sem best.
Sýningar í Bíóhúsinu á Selfossi verða á hverjum degi og allar helgar. Stefnt er að því að bjóða upp á sérstök fjölskyldutilboð svo fjölskyldur eigi auðveldara með að fara saman í bíó.