1.7 C
Selfoss

Kvennalið Selfoss fær liðsauka fyrir sumarið

Vinsælast

Kvennaknattspyrnulið Selfoss hefur nýlega fengið góðan liðsauka fyrir komandi keppnistímabil í Pepsi-deildinni. Er þar um að ræða tvo leikmenn sem koma úr bandaríska háskólaboltanum, annars vegar framherjann Alexis Kiehl og hins vegar varnarmanninn Allyson Haran.

Alexis Kiehl og Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, við undirritun samningsins. Ljósmynd/UMFS.

Kiehl, sem er 22 ára gömul, var marka­hæsti leikmaður Dayton háskólans í Ohio á síðasta ári og valin leikmaður ársins hjá skólanum.
„Mér líst mjög vel á Alexis. Hún er búin að vera hjá okkur síðan í mars og fellur vel inn í þetta hjá okkur. Hún er kraftmikill og snjall leikmaður, með góða fótboltagreind, flink með boltann og mjög góð að klára færi,“ segir Alfreð Elías, þjálfari Selfoss.

Haran, sem er 22 ára gömul, var fyrirliði í sterku liði Wake Forest háskólans. Haran fór í nýliðavalið í bandarísku atvinnumannadeildinni í vetur og var valin með 25. valrétti af liði Seattle Reign. Hún komst hins vegar ekki í endanlegan leikmannahóp liðsins og kaus í kjölfarið að hefja atvinnumannaferilinn á Íslandi.
„Ally kemur til okkar úr mjög góðu háskólaliði þar sem hún náði eftirtektarverðum árangri sem leikmaður. Hún er góð á boltannn og sterk í loftinu og á eftir að passa vel inn í varnarlínuna okkar. Hún er líka góður karakter og mun hjálpa yngri stelpunum okkar til að þróast enn frekar sem leikmenn,“ segir Alfreð Elías, þjálfari Selfoss.

Selfyssingar hefja leik í Pepsi-deild kvenna föstudaginn 4. maí þegar liðið heimsækir Val að Hlíðarenda.

Nýjar fréttir