-6.6 C
Selfoss
Home Fréttir Í bókum hef ég eignast vini og öðlast hugarró

Í bókum hef ég eignast vini og öðlast hugarró

0
Í bókum hef ég eignast vini og öðlast hugarró
Sigþrúður Haraldsdóttir.

Sigþrúður Harðardóttir, lestrarhestur Dagskrárinnar, er íslensku- og dönskukennari við Grunnskólann í Þorlákshöfn. Hún segist alltaf hafa haft gaman af bóklestri, varð snemma læs og á æskuárunum heima á Selfossi varði hún miklum tíma í lestur sögubóka. „Ég var tíður gestur á bókasafninu í gamla safnahúsinu og nú þegar ég leiði hugann til þessa tíma sé ég fyrir mér hvern krók og kima á safninu og finn jafnvel ,,bókalyktina“ sem þar var.”

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég hef nú oftast fleiri en eina bók á náttborðinu. Núna var ég að byrja á mjög áhugaverðri bók eftir kínverska konu, Xiaolu Guo. Hún heitir Einu sinni var í austri – uppvaxtarsaga og það var samkennari minn sem rétti mér hana úr eigin bókasafni. Ingunn Snædal þýddi bókina og bókin lofar sannarlega góðu. Englar alheimsins eftir Einar Má og Mýrin eftir Arnald eru líka innan seilingar þessar vikurnar þar sem nemendur mínir í 9. og 10. bekk eru að lesa þær hjá mér í íslensku.

Áttu þér uppáhalds barnabók?
Upp í hugann kemur bók sem við systkinin áttum. Hún hét Ævintýri æskunnar og innihélt safn erlendra ævintýra sem voru myndskreytt svo undur fallega. Þessa bók las ég þar til hún hreinlega datt í sundur. Mér til mikillar gleði fann ég hana endurútgefna fyrir nokkrum árum undir öðru nafni – en ævintýrin og myndirnar voru nákvæmlega eins. Einhverra hluta vegna fannst börnunum mínum ekki eins mikið til þeirra koma eins og mér forðum daga! Ég má líka til með að nefna vinkonu mína Línu langsokk þegar spurt er um uppáhaldsbarnabók. Allar bækurnar um Línu las ég mörgum sinnum og hafði alltaf jafn gaman af. Á unglingsárunum voru það svo bækur K.M Peyton um hann Patrik sem áttu hug minn allan, enda þá nýlega komnar út í snilldarþýðingu Silju Aðalsteinsdóttur.

Var lesið fyrir þig sem barn?
Það var ekki mikið lesið fyrir mig heima en í barnaskóla hafði ég frábæra kennara sem lásu fyrir okkur á hverjum degi. Ég man til dæmis að Iðunn Gísladóttir las Óli Alexander fíli bomm, bomm, bomm þegar ég var í sex ára bekk sem þá hét. Lestrarstundirnar þóttu mér alltaf góðar stundir í barnaskóla.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Á fullorðinsárum hef ég mest gaman af því að lesa um fólk, raunverulegt fólk, gjarnan konur og líf þeirra. Ég get með sanni sagt að ég sé raunsæismanneskja þegar kemur að bókmenntasmekk því erfið lífsbarátta, óvenjuleg æviganga, harmur, streð og mótlæti er gjarnan þráðurinn í þeim sögum sem helst höfða til mín. Þetta er þó ekki algilt og ég hef alltaf gaman af því að grípa í vel skrifaðar skáldsögur þó glæpasögur eigi ekkert sérstaklega upp á pallborðið hjá mér. Svo er ég ljóðaunnandi og hef gjarnan ljóðabók á náttborðinu. Það er svo róandi að lesa ljóð.

Áttu þér uppáhaldshöfund?
Ég gæti nefnt marga, einkum íslenska nútímahöfunda sem mér finnast margir frábærir. En mig langar að minnast á rithöfundafjölskyldu sem ég hef mikið dálæti á. Jóhanna Kristjónsdóttir var sú sem vakti áhuga minn á ævisögum með bók sinni Perlur og steinar. Síðan hef ég líklega lesið allt sem hún skrifaði um dagana. Hrafn Jökulsson sonur hennar skrifaði eina af mínum uppáhaldsbókum Þar sem vegurinn endar og Hart í bak eftir Jökul var fyrsta leikritið sem ég las en það var til á æskuheimilinu. Ekki beint barnaefni en ég las það samt. Bækur Illuga og Unnar Jökulsbarna eru líka frábærar og Elísabet Kristín er bráðskemmtilegt ljóðskáld.

Steinn Steinarr er samt uppáhaldsljóðskáldið mitt allar götur frá því Matthías Viðar Sæmundsson kynnti mig fyrir ljóðlist þegar hann kenndi mér í FSu.

En hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?
Þar sem ég er íslenskukennari les ég heilmikið í vinnunni. Heima fyrir les ég einkum fyrir svefninn. Eftir að börnin stækkuðu fór þó að vera meiri tími heima í rólegheitum og þá finnst mér voða gott að slaka á í stofusófanum með góða bók.

Hversu miklu máli skipta bækur þig og er einhver sem hefur haft djúp áhrif á þig?
Miklu, vegna þess að í bókum hef ég eignast vini, lært að þekkja og dýpka tilfinningar mínar, öðlast hugarró og fræðst um lífið og tilveruna. Ég vil hafa bækur í kringum mig því þær hafa góða nærveru og eru mikil heimilisprýði. Því er fljótsvarað um djúpu áhrifin; Bróðir minn ljónshjarta. Hefur hún ekki haft áhrif á alla? Margar bækur Biblíunnar eru líka áhrifaríkar og lífsspekiritið Spámanninn eftir Kahlil Gibran las ég spjaldanna á milli þegar ég var að uppgötva ýmislegt í lífinu í kringum tvítugsaldurinn.

Ábendingar um áhugaverða lestrarhesta eru vel þegnar á netfangið jonozur@gmail.com.