5 C
Selfoss

42 börn á Leikskólanum Undralandi á Flúðum

Vinsælast

Leikskólinn er fyrsta skólastigið í skólakerfinu og er fyrir börn undir skólaskyldualdri. Leikskóli annast í samræmi við lög, að ósk foreldra, uppeldi og menntun barna á leikskólaaldri undir handleiðslu sérmenntaðs fólks í leikskólauppeldi.

Samkvæmt lögum skal meginmarkmið með uppeldi í leikskóla vera:

  • að fylgjast með og efla alhliða þorska barna í náinni samvinnu við foreldra,
  • að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku,
  • að hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börnin fái notið bernsku sinnar,
  • að stuðla að víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra,
  • að leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun,
  • að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, heilbrigðisvitund, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta.

Á leikskólanum Undralandi á Flúðum eru nú 42 börn í vistun og langflest þessara barna eru í átta tíma á dag. Á leikskólanum eru starfandi þrír leikskólakennarar, einn grunnskólakennari, einn þroskaþjálfi, einn aðstoðarleikskólakennari og tveir leikskólaliðar. Aðrir starfsmenn eru ýmist í námi sem tengist vinnu eða í öðru námi. Mikill mannauður er í starfsfólki sem hefur unnið lengi á leikskólanum og hefur tekið þátt í mótun starfsins, bæði með því að sitja námskeið sem tengjast vinnunni og ekki síður með því að læra af þeim sem hafa aflað sér menntunar á leikskólastiginu.

Samkvæmt lögum er ýmislegt sem á að gera í leikskólanum og hvernig förum við að því? Dagsskipulagið veitir einhverja innsýn í starfið á leikskólanum þar sem allir þættir námsins tvinnast saman, skipulagt starf, frjáls leikur og hvíld. Við leggjum áherslu á að börnin fái notið sín á eigin forsendum og höfum haft að leiðarljósi hugmyndafræði Loris Malaguzzi.

Þessi hugmyndafræði er kennd við borgina Reggio Emilia og er Loris Malaguzzi aðalfrumkvöðullinn og hugmyndasmiðurinn að henni. Loris Malaguzzi leit á menntun sem samfélagslegt ferli og hlutdeild í menningu. Hann áleit að hún ætti að einkennast af trausti og virðingu fyrir ómældri getu barna til að afla reynslu og þekkingar á eigin forsendum. Leggja ætti áherslu á að börnin kynnist því liðna til að flétta inn í nútíðina og byggja framtíð í gegnum sameiginlegar uppgötvanir. Hafa fæturna tryggilega á jörðinni og höfuðið í hugmyndafluginu. Mikil áhersla er lögð á að efla sjálfsmynd, söguvitund, grenndarvitund og umhverfisvitund. Eitt af grundvallarviðhorfum Malaguzzi, er að sjá sérhvert barn sem einstakt og að það sé sjálft aðalpersónan hvað varðar eigin vöxt og þroska. Ef maður vill kynnast börnum verður maður líka að kynnast veröld þeirra. Hlusta, horfa opið og spyrjandi á þau og kynna okkur leiki þeirra.

„Börn eru gullnáma en hlutverk fullorðinna er að fá gullið til að glóa”.

Við leggjum áherslu á leikinn í öllum hans myndum og setjum hann í öndvegi, vegna þess að í leiknum felst námið. Hann er kennsluaðferð leikskólakennarans og námsleið barnsins. Leikurinn er kjarni uppeldisstarfsins í leikskólanum. Frjáls og sjálfssprottinn leikur er hið eðlilega tjáningarform barnsins. Reynsla barnsins tekur oftast á sig form leiksins. Í frjálsum leik eru mikilvægir uppeldiskostir sem geta eflt alhliða þroska barnanna, þ.e. líkams-, tilfinninga-, félags-, vitsmuna-, siðgæðis- og fagurþroska. Leikurinn er líf barnsins og starf. Segja má að í bernsku sé það að leika sér sama og að læra og afla sér þekkingar. Fjölþætt reynsla elur af sér þekkingu, nýjar tilfinningar, nýjar athafnir og nýja færni.

Við höfum tileinkað okkur að læra íslensku málhljóðin með honum Lubba, en Lubbi er hundur sem ferðast um landið og kennir börnunum íslensku málhljóðin. Með því að læra málhljóðin koma bókstafirnir óhjákvæmilega við sögu því hverju málhljóði fylgir bókstafur.

Einnig vinnum við með námsefni frá Barnaheill sem heitir Vinátta og kennir börnum samskipti og hvernig hægt er að vinna sig út úr aðstæðum sem oft geta verið flóknar þegar maður er á leikskólaaldri.

Í leikskólanum er starfandi sérkennslustjóri sem vinnur í nánu samstarfi við foreldra og starfsfólk leikskólans. Leikskólinn vinnur eftir hugmyndafræði sem byggir á snemmtækri íhlutun. Íhlutunin miðar að því að grípa sem fyrst inni í ef grunur um þroskafrávik barna vakna. Ýmis skimunartæki eru notuð til að fylgjast með þroskaframvindu barna í leikskólanum og unnið er út frá þeim skimunum með snemmtækri íhlutun í samstarfi við foreldra. Tengiliðir okkar eru Skólaþjónusta Árnesþings, Heilsugæslan og Velferðarþjónustan en þar höfum við aðgang að sérfræðingum ef á þarf að halda.

Um miðjan apríl stefnir allt starfsfólk leikskólans í námsferð til Brighton, við ætlum að kynna okkur útikennslu og fá meiri fræðslu um Reggio stefnuna. Við vitum sem er að alltaf er hægt að bæta við sig fræðslu til að gera góðan leikskóla betri.

Við leggjum áherslu á gott samstarf við foreldra og erum stolt af leikskólanum okkar. Góð menntun starfsfólks, lítil starfsmannavelta og stuðningur sveitarfélagsins er mikilvægur þáttur í starfinu.

Á hverjum degi lesum við um vandræði með vistun barna víða á landinu, börn ýmist komast ekki í leikskóla eða komast ekki fyrr en þau eru orðin tveggja ára. Við erum stolt af því að geta boðið foreldrum vistun fyrir börnin hér í sveit frá eins árs aldri.

Það sem ekki má gleymast er að leikskólastigið er fyrsta skólastigið en alltof oft er horft á leikskóla sem geymslustað. Við leggjum metnað í að gera góðan leikskóla betri með öllum þeim ráðum sem við höfum yfir að ráða og gaman er að segja frá því að þeir starfsmenn sem eru í námi koma oftar en ekki stoltir til baka úr staðlotum og vettvangsnámi með þá sannfæringu að hér sé unnið mjög gott starf.

Við hvetjum þá sem áhuga hafa að kíkja í heimsókn til okkar og kynna sér það faglega og góða starf sem fram fer á leikskólanum. Það er alltaf heitt á könnunni.

Ingibjörg leikskólastjóri, Freyja deildarstjóri, Katrín deildarstjóri, Ásta deildarstjóri og Valdís sérkennslustjóri.

 

Nýjar fréttir