-1.2 C
Selfoss
Home Fréttir Vortónleikar Söngsveitar Hveragerðis

Vortónleikar Söngsveitar Hveragerðis

0
Vortónleikar Söngsveitar Hveragerðis
Diddú syngur með Söngsveit Hveragerðis á vortónleikunum í Hveragerðiskirkju 1. maí nk.

Við fæðumst öll með fagran söng í hjarta
því fuglinn okkar situr þar á grein
og lofar tilveruna og ljósið bjarta
hvert lífsins undur, vatn og blóm og stein

Þannig orti Olga Guðrún Árnadóttir og þannig ætlar Söngsveit Hveragerðis að syngja inn sumarið 1. maí næstkomandi í Hveragerðis kirkju klukkan 20:00.

Vetrarstarf söngsveitarinnar hefur verið gefandi og skemmtilegt, hafa nú söngfélagar sungið saman í 21 ár. Aðventutónleikarnir voru að venju í Hveragerðiskirkju, sungið á Heilsustofnun fyrir gesti og nú á vordögum var haldið skemmtikvöld með nágrönnum okkar, Söngfélagi Þorlákshafnar, í Skyrgerðinni í Hveragerði, fyrir fullu húsi. Allir fóru með söng í hjarta heim.

Þema vortónleika Söngsveitarinnar í Hveragerðiskirkju 1. maí eru létt og skemmtileg lög í anda sjötta áratugarins. Má þar nefna Ellýar lög eins og Heyr mína bæn, Allt mitt líf, og önnur lög frá þeim tíma. Sérlegur gestur verður hin landskunna sópransöngkona Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú). Stjórnandi er Margrét S. Stefánsdóttir og undirleikarar Esther Ólafsdóttir á píanó, Ian Wilkinson á básúnu og Örlygur Benediktsson á saxafón og klarinett.

Félagar Söngsveitar Hveragerðis vonast til að sjá sem flesta og eiga ánægjulega kvöldstund. Allir eru velkominir.