3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Vonast til að hitta sem flesta fyrir kosningarnar

Vonast til að hitta sem flesta fyrir kosningarnar

0
Vonast til að hitta sem flesta fyrir kosningarnar
Halldór Pétur Þorsteinsson.

Nú í sumar verða tuttugu ár síðan sveitarfélagið Árborg varð til við sameiningu Eyrarbakkahrepps, Stokkseyrarhrepps, Sandvíkurhrepps og Selfoss. Ég hef notið þeirra forréttinda, í tólf ár af þeim tíma, að fá að búa við ströndina á Eyrarbakka og hef ekki í hyggju að breyta þeirri búsetu í framtíðinni.

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í sveitastjórnarkosningum í sveitarfélaginu Árborg fyrir Vinstrihreyfinguna Grænt framboð (VG) nú í vor en ég er þar í fyrsta sæti. Það er notaleg tilfinning þegar einhver fer þess á leit við mann að taka slíkri áskorun og þakka ég fyrir það traust. Ég tel að menntun mín, og ekki síst reynsla, muni nýtast mér vel á þessum vettvangi. Mitt sterkasta framlag í komandi kosningabaráttu og starfi í sveitarstjórn, ef allt gengur vel, er reynsla mín og áhugi á stjórnsýslu, sem og umburðarlyndi og heiðarleiki, sem ég reyni að hafa að leiðarljósi í lífinu.

Ég er borinn og barnfæddur Reykvíkingur, alinn upp í Hlíðunum og átti þar yndislega æsku. Eftir að ég komst á fullorðinsár hef ég búið í Kópavogi, Hafnarfirði, Akureyri, Álaborg í Danmörku og svo í Árborg.

Ég er menntaður vélaverkfræðingur og vélvirkjameistari ásamt því að vera með réttindi sem heilbrigðisfulltrúi og starfaði sem slíkur hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands. Núverandi starf mitt, síðan 2012, er fagsviðsstjóri fiskeftirlits hjá Matvælastofnun. Öll mín starfsævi hefur einkennst af því að sjávarútvegur er mér í blóð borinn, t.a.m. var ég til sjós öll sumur unglingsáranna frá þrettán ára aldri, aðallega með karli föður mínum sem alla tíð var togaraskipstjóri. Þá hef ég starfað sem framkvæmdastjóri, m.a. tveggja stéttarfélaga, BHM og Stéttarfélags verkfræðinga. Ég starfaði sem verkefnisstjóri hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og um fimm ára skeið sem verkefnisstjóri í tímabundnu verkefni sem hét heilbrigðistæknivettvangur, en það var starfrækt af Samtökum iðnaðarins í samvinnu við tvö ráðuneyti og Landsspítalann. Einnig starfaði ég sem sérfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu í um tvö ár.

Ég og kona mín erum áhugasöm um gömul hús og það er upphafleg ástæða þess að við hjónin settumst að á Eyrarbakka og fengum aukreitis það dásamlega umhverfi sem ströndin er.

Ég hef kynnst afskaplega góðu fólki í Árborg á minni tólf ára búsetu hér og oft tekið þátt í umræðu um ýmis málefni sveitarfélagsins og get með sanni sagt að margt gott hefur verið gert og ýmislegt má betur fara, en meira um það síðar.

Við hjá Vinstri grænum verðum með kosningaskrifstofu á Austurvegi 21, Selfossi (gamla bankanum), og munum opna hana formlega í byrjun maí. Gestum og gangandi verður boðið þangað til skrafs og ráðagerða og verður það auglýst nánar þegar nær dregur.

Ég vonast til að hitta ykkur sem flest fyrir kosningarnar.

Halldór Pétur Þorsteinsson, Árborgarbúi og Eyrbekkingur.