5 C
Selfoss
Home Fréttir Flýtum byggingu nýrrar brúar yfir Ölfusá

Flýtum byggingu nýrrar brúar yfir Ölfusá

0

Í september á síðasta ári var haldinn opinn íbúafundur með fulltrúa Vegagerðarinnar þar sem farið var yfir stöðu mála hvað varðar byggingu nýrrar brúar yfir Ölfusá og tvöföldun þjóðvegar 1 milli Hveragerðis og Selfoss.

Tilefni fundarins var meðal annars að komast að því hversu lengi íbúar sveitarfélagsins megi vænta þess að bíða eftir að ný brú verði tilbúin svo létta megi á því ófremdarástandi sem skapast allar helgar yfir sumartímann og fram á haust á hverju ári þegar umferðarteppa myndast við gömlu brúnna yfir Ölfusá á Selfossi.

Á fundinum kom í ljós að samkvæmt núverandi áætlun þá verður ný brú ekki tilbúin fyrr en eftir 9 ár. Ástæða þess er sú að ekki fæst nægjanlegt fé til að fara bæði í brúarbyggingu og tvöföldun vegarins á sama tíma og því hafi forgangsröðin á verkefninu verið sett þannig að fyrst yrði farið í tvöföldunina og síðan brúarbyggingu. Við frekari eftirgrennslan kom í ljós að ástæðan fyrir þessari forgangsröðun væri vegna óska frá sveitarfélögunum sem framkvæmdin nær yfir en í samgönguáætlun frá 2014 var brúarbyggingin í forgangi samkvæmt tillögu Vegagerðarinnar.

Í umræðum um málið sem urðu í framhaldi af þessum upplýsingum kom í ljós að það er ekkert sem mælir gegn því að brúarsmíðin sé aftur sett í forgang og tvöföldunin komi á eftir. Með því að gera það gæti ný brú verið tilbúin eftir 4-5 ár en ekki 9.

Það sem mælir einna helst með slíkri breytingu er sú staðreynd að gamla brúin yfir Ölfusá er komin á tíma með mjög kostnaðarsamt viðhald sem myndi meðal annars fela í sér að loka þyrfti brúnni í einhvern tíma. Þessu viðhaldi verður ekki hægt að fresta um mörg ár í viðbót nema álaginu á henni sé létt.

Við sem stöndum að bæjarmálafélaginu Áfram Árborg viljum því að hafist verði strax handa við að breyta þessari forgangsröðun svo nýja brúin megi rísa sem allra fyrst. Það er mikilvægt hagsmunamál fyrir íbúana og aðra sem þurfa að komast um sveitarfélagið okkar að samgöngur séu greiðar og skilvirkar og við munum beita okkur fyrir því.

 

Sigurjón Vídalín Guðmundsson, frambjóðandi í 1. sæti Áfram Árborg