-2.7 C
Selfoss
Home Fréttir Aldrei of seint að byrja í námi

Aldrei of seint að byrja í námi

0
Aldrei of seint að byrja í námi
Gróa Herdís Bæringsdottir.

Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi býður uppá margskonar nám fyrir fullorðið fólk, m.a. nám á leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú. Námið er kennt í dreifnámi með vendikennsluskipulagi en þá er einn áfangi kenndur í einu. Þetta fyrirkomulag hefur mælst mjög vel fyrir, það hentar sérlega vel þeim sem stunda nám með vinnu og veitir aukinn sveigjanleika í námi. Alls hafa 59 einstaklingar lokið brúarnámi frá Fræðslunetinu og í vor munu 12 félagsliðar útskrifast og 6 leikskólaliðar og 11 stuðningsfulltrúar. Gróa Herdís Bæringsdóttir sem er öryrki er 27 ára og býr í Austur-Landeyjum. Hún er ein af þeim sem útskrifast sem leikskólaliði í vor en hún hóf nám haustið 2014.

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?
„Þegar ég var hætt á endurhæfingarlífeyri og komin á örorkubætur þá virtust öll úrræði vera úr sögunni. Þegar ég var í endurhæfingu þá voru miklir möguleikar í boði en ekkert eftir að ég fór á örorkuna. Ég hafði verið í Virk í langan tíma og þar var yndisleg kona sem vildi allt fyrir mig gera og einn daginn hringdi hún í mig, þó ég væri ekki lengur í Virk og sagði mér frá námskeiði á vegum Fræðslunetsins. Þannig byrjaði boltinn að rúlla og á námskeiðinu var mér bent á allskonar nám sem væri í boði og ég valdi mér að fara í leiksskólaliðann.“

Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?
„Námið sjálft hefur verið frábært í alla staði og það er komið svo mikið á móts við sérstakar þarfir manns og það vilja allir allt fyrir mann gera. Þar sem ég varð öryrki vegna hamlandi kvíðaröskunar þá gekk mér aldrei vel að stunda nám á hefðbundnum stöðum. En þar sem þetta nám er í gegnum Skype og ég hef fengið að stunda það heima þá hefur mér gengið alveg ótrúlega vel. Einnig finnst mér námsefnið einstaklega skemmtilegt og það er svo ótrúlega margt í boði að fólk getur alltaf fundið sér eitthvað við hæfi. Ég hafði aldrei heyrt um Fræðslunetið áður og því kom mér þetta skemmtilega á óvart.“

Hvernig finnst þér námsskipulagið?
„Það er mjög hentugt þar sem tímarnir eru eftir kl. 17 og því getur fólk sem stundar vinnu einnig tekið þátt. Þar sem námsefnið er birt á kennsluvef þá er alltaf hægt að nálgast það þar og svo eru alltaf ákveðnir dagar sem eru heimavinnudagar en maður getur einfaldlega unnið verkefnin á þeim dögum sem henta best.“

Hvernig fannst þér ganga að tileinka þér vendinám?
„Vendinámið er eitthvað sem mér finnst alveg hreint æðislegt. Þar er átt við speglað nám þar sem annar dagurinn er heimavinna og hinn daginn er kennsla. Þetta eru oftast fyrirlestrar og heimaverkefni. Í kennslustundum er síðan farið yfir efnið sem unnið var heima og oft eru einnig verkefni í tímum.“

Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?
„Mitt mottó í náminu er frekar einfalt, en það er bara að standa sig eins vel og ég get og hafa gaman af því. Mér finnst alveg hræðilegt hvað það eru fáir möguleikar í boði fyrir fólk sem komið er á örorku og sérstaklega þegar þetta eru ungir einstaklingar eins og ég sjálf sem vilja reyna að stefna aftur út á vinnumarkaðinn. Því finnst mér frábært að það séu til stofnanir eins og Fræðslunetið sem bjóða upp á óhefðbundnara nám sem hentar fólki eins og mér. Mér finnst mjög mikilvægt fyrir andlega heilsu að hafa eitthvað eflandi fyrir stafni og það er ómótstæðilega styrkjandi fyrir sjálfstraustið.“

Hvað hefur þú hugsað þér að gera í framhaldinu?
„Ég útskrifast núna í maí af leikskólaliðabraut og komst að því að einingarnar sem ég hef tekið í þessu námi ganga upp í stúdentsnámið sem ég var byrjuð á sem unglingur og ætla ég því að klára stúdentinn á næstunni. Síðan ætla ég að fara í framhaldsnám í leikskólaliðanum í Fræðslunetinu þegar það verður í boði og síðan get ég vonandi farið að vinna í framhaldi af því. En þar til ég get farið út á vinnumarkaðinn aftur ætla ég mér að nýta mér alla þá námsmöguleika sem eru í boði í Fræðslunetinu því það hentar mér gríðarlega vel og sanka að mér allri þeirri menntun sem ég get.“

Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og hefja nám að nýju?
„Bara láta vaða! Það er aldrei of seint að byrja í námi og eins og alltaf er sagt þá lærir maður eins lengi og maður lifir. Það eru svo margir valmöguleikar til staðar og því meiri menntun sem maður hefur því fleiri möguleikar eru í boði.“