5 C
Selfoss

Íbúafundur um menntamál í Árborg

Vinsælast

Á opnum íbúafundi Bæjarmálafélagsins Áfram Árborg um menntamál sem haldinn var í Selinu sl. laugardag, kom fram að Árborg hefði alla burði til að vera í fararbroddi í menntamálum.

„Við eigum frábæra grunnskóla og leikskóla í Árborg. Leyfum þeim að efla sérstöðu sína“ sagði Már Másson, grunnskólakennari við Vallaskóla. Hann talaði einnig um samþættingu námsgreina, meiri sköpun og að áherslan ætti að vera á kennarann sem sjálfstæðan fagaðila. Stundataflan og talning mínútna gæti oft hamlað sköpun og framförum í skólastarfi. Fjöldi stóla og borða tryggði ekki námsárangur.

Gunnar E. Sigurbjörnsson tómstunda- og forvarnarfulltrúi Árborgar brýndi fyrir fundagestum nauðsyn þess að sveitarstjórnir og foreldrar kveikji á perunni varðandi mikilvægi óformlegs náms sem á sér stað í frítíma og tómstundum barna og ungmenna. Allt of mörgum börnum og ungmennum líður ekki vel í skóla og finnur sig heldur ekki í íþróttastarfi. Hægt er að koma til móts við mörg þeirra í gegnum skipulagt og faglegt tómstundastarf. „Öll börn vilja og þurfa að tilheyra. Við berum ábyrgð á því að skapa þeim vettvang til þess utan skólatíma“ sagði Gunnar.

„Í sjálfstæðum rekstri getur skólafólk, foreldrar eða annað áhugafólk um uppeldi og menntun tekið að sér alla stjórn á skólastarfinu og þannig aukið á fjölbreytni“ sagði Margrét Pála Ólafsdóttir, stjórnarformaður Hjallastefnunnar. Í skólum Hjallastefnunnar er lögð mikil áhersla á jákvæðni og kærleika, sköpun og ímyndum, lýðrétti, jafnrétti og frelsi. Samstarf við foreldra og börn er mikið og opnunartímar byggja á óskum foreldra. Magga Pála hefur nýverið tekið upp á þeirri nýbreytni að stytta vinnuviku starfsfólks og það hefur gengið vonum framar.

Allir á fundinum voru sammála um að auka mætti gæði menntunar og ánægju starfsfólks, foreldra og nemenda verulega, ef vilji sveitarstjórnar stæði til þess.

Nýjar fréttir