3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Hættum að dæla skólpinu í Ölfusá

Hættum að dæla skólpinu í Ölfusá

0
Hættum að dæla skólpinu í Ölfusá
Helgi Sigurður Haraldsson, forseti bæjarstjórnar í Svf. Árborg.
Helgi Sigurður Haraldsson, bæjarfulltrúi Framsóknar í Svf. Árborg.

Undanfarin ár hefur verið unnið að því í Sveitarfélaginu Árborg að setja upp hreinsistöð fyrir þá fráveitu sem rennur óhreinsuð í Ölfusá, fyrir neðan Selfoss. Undirbúningurinn hefur miðað að því að setja upp hreinsistöð sem grófhreinsar það sem út í ána fer, svokölluð eins þrepa hreinsun. Þar sem þessi framkvæmd er matskyld samkvæmt lögum er nú í gangi vinna við matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum hreinsistöðvar fráveitu á Selfossi. Í þeirri matsáætlun er komið inn á nokkra möguleika m.a. eins þrepa hreinsun, tveggja þrepa hreinsun, byggingu hreinsistöðvar með ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa og eins þrepa hreinsistöð og dæling á skólpi til sjávar.

Öll þessi vinna er, eins og áður sagði, í lögbundnu ferli og ekki vitað hvenær því líkur. Það hefur lengi verið skoðun undirritaðs að skoða eigi vel þann kost að sameina allar útrásir fráveitu frá Selfossi, Stokkseyri, Eyrarbakka og jafnvel Tjarnarbyggðarinnar, í eina útrás út í sjó. Í dag eru margar útrásir, bæði á Stokkseyri og Eyrarbakka, sem renna beint út í sjó. Engin vinna er í gangi með að leysa þau fráveitumál. Þess vegna tel ég að það eigi að skoða þennan kost vel, nú þegar þetta er í vinnslu og tel einsýnt að besta lausnin sé að fara með þetta, hreinsað á einum stað út í sjó. Hvar besti staðurinn til þess, með tilliti til mengunar og annars, er síðan sérfræðinga að skoða og meta og leggja til. Það verður ekki gert með því að skaða það nágrenni sem verður við væntanlega hreinsistöð og útrás.

Notum tækifærið og leysum fráveituvandamálin í sveitarfélaginu með skynsamlegri ákvarðanatöku og með náttúru og búsetugæði í huga. Hættum að dæla skólpinu í Ölfusá og óhreinsuðu í sjóinn.

Helgi Sigurður Haraldsson, bæjarfulltrúi Framsóknar í Svf. Árborg.