-5.4 C
Selfoss
Home Fréttir Íbúalýðræði

Íbúalýðræði

0
Íbúalýðræði
Guðmundur Brynjólfsson.

Það gerist stundum að stjórnmálamenn hafa hugsun á því að tala um íbúalýðræði. Það er yfirleitt á þeim tímapunkti þegar ekki er nokkur leið að framkvæma slíkt. Þetta vitum við öll; við höfum horft upp á þetta ár eftir ár, kjörtímabil eftir kjörtímabil. Þegar kosningar standa fyrir dyrum vilja allir stjórnmálamenn bætt aðgengi borgarans að ákvarðanatöku – valddreifing og beint lýðræði eru þá frasarnir sem kastað er fram – og svo íbúalýðræðið, jú jú og sei sei. En, svo fær ekki kjaftur að kjósa um eitt eða neitt fyrr en að fjórum árum liðinum.

En, hvað er íbúalýðræði? Jú, það eru þau ósköp að íbúar í, t.d. sveitarfélagi, fái að ráða einhverju um sína nánustu hagi. En það er nokkuð sem öllum finnst sjálfsagt. Og er sjálfsagt.

Nú bregður svo við vegna ákvæðis í lögum að við íbúar í Árborg fáum að kjósa um ákveðið málefni í sveitarfélaginu. Það er ekki meirahluta sveitarstjórnar að þakka – svo það sé tekið fram. Heldur því að löggjafinn var aldrei þessu vant bæði virkur og vakandi í vinnunni.

„Fáum að kjósa“ sagði ég – það er ónákvæmt orðalag. Við fáum að kjósa ef svo og svo margir 1900 íbúar, eða svo, heimila okkur að kjósa. Gott og vel, ég bið ykkur – þessa rétt um nítjánhundruð að skrifa upp á lýðræðið. Lýðræði er nefnilega verðmætt.

Og um hvað ættum við svo sem að kjósa núna?

Jú, okkur býðst tækifæri til þess að kjósa frá okkur skipulagsslys, sem ilmar af spillingu og braski. Nú liggja frammi undirskriftarlistar þar sem tilgangurinn er sá að óska eftir almennri atkvæðagreiðslu um þá ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar Árborgar að samþykkja breytt aðalskipulag – og annar listi þar sem farið er fram á það sama varðandi deiliskipulag. Þessi gjörningur bæjarstjórnar frá 21. febrúar sl. var mjög umdeildur og því er það réttlætismál að fá úr því skorið með beinu lýðræði; í þetta sinn íbúalýðræði.

Það er öllum ljóst að mikil andstaða er uppi í sveitarfélaginu vegna áætlana Sigtúns þróunarfélags ehf. um að byggja upp heilt hverfi í sundurleysisstíl á einhverjum ágætasta stað í bæjarfélaginu. En samþykktir bæjarstjórnar frá 21. febrúar festu einmitt í sessi þau framtíðarplön fyrirtækisins. Því er nú kjörið tækifæri til þess að hafa áhrif á gang sveitarstjórnarmála – nú má hnekkja þessum gjörningi tímabundið og fá úr því skorið með almennum kosningum hvort vilji meirihluta atkvæðisbærra manna stendur í þá áttina að vilja fá leikmynd í miðbæinn, fölsun í menningarsögulegu samhengi hér á svæðinu, óskapnað sem ýtt var úr vör með því að handvelja verktakann og skipulagið – en hunsa útboð, samkeppnir og bara yfirleitt allar þær lýðræðislegu leiðir sem eðlilegt er að fara þegar um ræðir stórverkefni af þessu tagi.

Undirskriftarlistana má nálgast á eftirtöldum stöðum:

Hannyrðabúðinni Eyrarvegi 23, Bókakaffið Austurvegi 22, Bókasafn Árborgar Austurvegi 2. Þá verður og gengið í hús og undirskriftum safnað þannig. Það er einnig hægt að skrifa undir rafrænt inn á vef Þjóðskrár: http://listar.island.is/Stydjum/19 og http://listar.island.is/Stydjum/20.

Athugið að listarnir eru tveir, einn vegna deiliskipulags en hinn vegna aðalskipulags.

Það er ágæt viðvörun, þó ekki væri annað, að knýja fram íbúakosningu um þetta mál, viðvörun til þeirra sem ætla sér í slaginn um bæjarstjórnarstólana í vor. Kosning af þessu tagi myndi gera þeim raunverulega ljóst að við þurfum ekki að kokgleypa allt þeirra ráðabrugg – við höfum fleiri vopn en þau að kjósa þá á með 4 ára millibili; við höfum líka það ráð að standa saman og virkja íbúalýðræðið.

Guðmundur S. Brynjólfsson, Túngötu 3, Eyrarbakka.