1.7 C
Selfoss

FSU-KARFA breytist í SELFOSS-KARFA

Vinsælast

Aðalfundur Körfuknattleiksfélags FSU var haldinn í Iðu 5. apríl sl. Þetta var tímamótafundur í sögu félgasins, því þar voru samþykktar afgerandi breytingar á lögum þess.

Meginbreytingin er nýtt nafn félagsins. Nú heitir það Körfuknattleiksfélag Selfoss, stytt SELFOSS-KARFA. Framvegis mun FSU-KARFA einskorðast við akademíuna sem félagið rekur við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Stúlkna- og drengjaflokkar nágrannafélaganna í Árnessýslu munu æfa í akademíunni og keppa sameiginlega sem FSU á opinberum mótum. Annað starf félagsins, yngriflokkar og meistaraflokkar, verður rekið undir nafni Selfoss, á sömu kennitölu og verið hefur.

Önnur helstu tíðindi af fundinum eru þau að félagið skilaði flottum ársreikningi fyrir árið 2017. Rekstrartekjur voru tæpar 16,6 milljónir, lækkuðu um 4% frá fyrra ári. Rekstrargjöld voru rúmar 14,6 milljónir, lækkuðu um 7% milli ára. Hagnaður án fjármagnsliða var 1.988.000 en rekstarniðurstaðan 1.645.766 kr.

Í skýrslu stjórnar kom fram að þrátt fyrir vonbrigði með gengi meistaraflokks karla í 1. deild Íslandsmótsins er bjart yfir starfi félagsins. Góð aðsókn var að akademíunni, þó vissulega sé leitt hve kynjasamsetningin þar er einhliða. Barna- og unglingastarfið er einnig í blóma, félagið er Fyrirmyndarfélag ÍSÍ og virkni í foreldrasamfélaginu fer vaxandi. Tvö fjölliðamót voru haldin með glæsibrag í Iðu og í mars opinn kynningarfundur meðal félagsmanna um áherslubreytingar í starfinu. Þá má nefna beinar útsendingar frá heimaleikjum í 1. deild karla sem jákvæð nýjung.

Viðræður eru hafnar við þjálfara fyrir næsta tímabil, en fyrir liggur að breytingar verða hvað varðar aðalþjálfara, bæði í meistaraflokki karla og í akademíunni. Fréttir af þeim málum verða sagðar um leið og samningar hafa verið undirritaðir, sem og fréttir af leikmannamálum, en þar er allt á fullum snúningi.

Á fundinum var öll stjórnin endurkjörin, en hún er þannig skipuð næsta starfsár: Formaður: Gylfi Þorkelsson, gjaldkeri: Eyþór Frímannssson, ritari: Blaka Hreggviðsdóttir og meðstjórnendur: Auður Rafnsdóttir, Jóhanna Hallbjörnsdóttir, Ólafur Valdín Halldórsson og Sigríður Elín Sveinsdóttir.

Framundan er nýr kafli. Félagið mun héðan í frá sigla skútu sinni undir nýju nafni úr nýrri heimahöfn. Niðurstaða liggur fyrir um það að félagið mun kveðja Iðu en nýr heimavöllur verður í Íþróttahúsi Vallaskóla, sem fær andlitslyftingu með vorinu og starfið hefst þar í sumar við bestu aðstæður.

Nýjar fréttir