0.6 C
Selfoss

Ár frá upphafi siglinga Smyril Line Cargo til Þorlákshafnar

Vinsælast

Fyrir réttu ári sigldi Mykines, vöruflutningaferja Smyril Line Cargo, í fyrsta sinn inn í Þorlákshöfn og tók fjölmenni á móti skipinu. Á því ári sem liðið er frá upphafi siglinganna hefur verkefnið eflst jafnt og þétt og umsvifin við höfnina hafa vaxið svo eftir er tekið. Það voru ekki allir í okkar samfélagi sannfærðir um ágæti hafnarinnar og getu hennar til að þjónusta stórt verkefni eins og þetta en endurbætur hafnarinnar á síðustu þremur árum hafa sannað sig svo um munar. Ekki er nokkur ástæða til að ætla annað en að höfnin verði enn frekar efld á næstu árum enda aðstæður hinar bestu hvort heldur horft er til hafnarinnar sjálfrar eða upplandsins.

Starfsemi Smyril Line Cargo í Þorlákshöfn hefur haft verulega jákvæð áhrif á samfélagið á þessu fyrsta ári starfseminnar. Bein störf hafa skapast á staðnum, tekjur hafnarinnar hafa aukist, segja má að fjöldi fyrirtækja á staðnum hafi gengið í gegnum endurnýjun lífdaga og áhugi einstaklinga og fyrirtækja á Þorlákshöfn hefur stóraukist. Mikil uppbygging á sér nú þegar stað í sveitarfélaginu og mörg áhugaverð verkefni eru í vinnslu. Íbúafjöldi sveitarfélagsins hefur aldrei verið meiri og Þorlákshöfn er svo sannarlega raunhæfur valkostur fyrir fólk til búsetu og fyrirtæki til uppbyggingar. Það verður gaman að fylgjast með þróun mála í næstu framtíð.

Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri Ölfuss.

Nýjar fréttir