2.3 C
Selfoss
Home Fréttir Undirskriftasöfnun í Árborg vegna íbúakosningar

Undirskriftasöfnun í Árborg vegna íbúakosningar

0
Undirskriftasöfnun í Árborg vegna íbúakosningar

Á fundi bæjarstjórnar Árborgar sem haldinn var 22. mars sl. var lagt fram erindi Davíðs Kristjánssonar, Gísla R. Kristjánssonar og Aldísar Sigfúsdóttur, vegna fyrirhugaðrar undirskriftasöfnunar um íbúakosningu vegna deili- og aðalskipulags fyrir miðbæ Selfoss.

Í erindinu var óskað eftir samþykki bæjarstjórnar Árborgar fyrir söfnun undirskrifta um að samþykkt bæjarstjórnar Árborgar um að breyting á aðalskipulagi miðbæjar Selfoss þann 21. febrúar 2018 (liður 1 málsnr. 1603203) verði sett í íbúakosningu. Óskin er byggð á gr. 107 og 108 í sveitarstjórnarlögum og reglugerð nr. 155/2013.

Að loknum umræðum lagði Sandra Dís Hafþórsdóttir, forseti bæjarstjórnar, fram eftirfarandi tillögu sem var samþykkt samhljóða af öllum bæjarfulltrúum:

„Bæjarstjórn metur það svo skv. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 155/2013 að ákvæði 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 hamli því ekki að unnt sé að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu um málin og felur framkvæmdastjóra sveitarfélagsins að tilkynna ábyrgðaraðila þá niðurstöðu, birta tilkynningu um fyrirhugaða undirskriftasöfnun skv. 4. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, senda Þjóðskrá Íslands tilkynningu um hana og láta ábyrgðaraðila í té eyðublöð sem uppfylla áskilnað 4. gr. reglugerðarinnar. Undirskriftasöfnun má hefjast 23. mars og skal lokið 20. apríl nk.“