2.3 C
Selfoss

Skemmtileg íþróttaveisla á Sauðárkróki í sumar

Vinsælast

„Það er allt á fullu hjá okkur þessa dagana að undirbúa Landsmótið sem verður haldið á Sauðárkróki dagana 12.–15.júlí í sumar. Þetta verður skemmtileg íþróttaveisla með nýjum áherslum. Nýjung fyrir alla sem hafa gaman af því að hreyfa sig,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Landsmótið, eins og þú vilt hafa það

Á Landsmótinu verða næstum fjörutíu íþróttagreinar í boði. Dagskránni er skipt niður í fjóra flokka; kepptu, láttu vaða, leiktu þér og skemmtu þér. Það er einmitt láttu vaða sem er ein af nýju áherslunum en þar geta þátttakendur Landsmótsins fengið tækifæri til að prófa fjölda íþróttagreina eða fá kennslu og kynningu í þeim. Mótsgestir geta valið hverju þeir taka þátt í og sett mótið sitt saman. Eitt verð gildir fyrir allt mótið, hvort heldur tekið er þátt í einni grein eða mörgum. Flestir viðburðirnar sem boðið er upp á í tengslum við Landsmótið eru fríir og fá þátttakendur afslátt á ýmsa aðra viðburði.

Mikil þekking og reynsla af mótahaldi

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

„Ég er handviss um að Landsmótið verði alveg stórkostlegt enda rosalegir reynsluboltar í hverju horni sem koma að því,“ segir Auður Inga. Ómar Bragi Stefánsson, sem margir þekkja, er framkvæmdastjóri Landsmótsins. Thelma Knútsdóttir hefur verið ráðin við hlið hans sem verkefnastjóri á Sauðárkróki og saman mynda þau öflugt teymi ásamt fjölda sjálfboðaliða um allt land. Sveitarstjórnarfólk í Skagafirði hefur verið á fullu í næstum fjögur ár að undirbúa mótið og má búast heilmiklu fjöri fyrir alla 18 ára og eldri sem mótið er hugsað fyrir.

Samhliða Landsmótinu fer fram Landsmót UMFÍ 50+. Þetta verður stærsta landsmótið fyrir fimmtíu ára og eldri sem haldið hefur verið. Miklu meira verður um að vera á mótinu á Sauðárkróki enda geta þátttakendur tekið þátt í ýmsum viðburðum tengdum Landsmótinu, ráðstefnum, kynningum að ógleymdu matar- og skemmtikvöldi þar sem Geirmundur Valtýsson mun stýra skagfirskri sveiflu eins og honum er einum lagið. Meistaramót FRÍ verður einnig haldið á Sauðárkróki þessa sömu daga þannig að það verður nóg um að vera fyrir þá sem vilja mæta og fylgjast með.

Frábært mót fyrir vinahópa

Auður Inga segir gífurlega mikið úrval íþróttagreina í boði á Landsmótinu og hvetur alla til að kynna sér úrvalið og hóa saman félagana.

„Ég sé fyrir mér að þarna geti vinahópar komið saman og skemmt sér í íþróttum, gamlir skóla- eða íþróttafélagar sem vilja rifja upp taktana í brennibolta, bandíi, golfi, fari saman í kennslu í línudansi, salsa, zumba eða jóga, hjóli saman eða skokki og eigi svo góðar stundir saman á tjaldsvæðinu á kvöldin eða einhverjum að þeim tónleikum sem skipulagðir hafa verið. Það verður nóg í boði, íþróttir og hreyfing á daginn og samvera og gleði á kvöldin,“ segir Auður Inga og hvetur sem flesta til að kynna sér Landsmótið á vefsíðunni www.landsmotid.is.

Nýjar fréttir