3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Teiknimyndabækur njóta mikillar virðingar í Frakklandi

Teiknimyndabækur njóta mikillar virðingar í Frakklandi

0
Teiknimyndabækur njóta mikillar virðingar í Frakklandi
Teikning: Katrín Vigfúsdóttir.

Pascale Darricau, lestrarhestur Dagskrárinnar, býr á Selfossi en er fædd og uppalin í Frakklandi í héraðinu Gascogne sem er á milli Bordeaux og Pýreneafjalla. Hún er með franskt meistarapróf í klassískum bókmenntum og kennsluréttindi og íslenska diplómu í sérkennslufræðum. Hún starfar sem myndmenntakennari þriggja til sex ára barna á leikskólanum Jötunheimum.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Núna er ég aðallega að lesa Bleak House eftir Charles Dickens. Bækur hans hafa ekki alltaf höfðað til mín en ég var ákveðin í að gefa Dickens eitt tækifæri enn. Hún byrjaði vel. Ljóðræn lýsing á þokunni á fyrstu blaðsíðunni gaf tóninn. Leyndarmál, óréttlæti og harmleikur skríða inn í söguna kafla eftir kafla. Með sólargeisla þar á milli. Ég er oft með nokkrar bækur samtímis. Ég er líka að lesa brot af ævisögu Tierno Bokars (1875–1939), súfimeistara frá Mali. Það veitir ekki af að lesa hann til að fagna fegurð og fjölbreytni trúarbragða og menningarheima, vísa til Kóransins og benda á fegurð regnbogans sem stafar af litafjölbreytni og samsetningu máli sínu til stuðnings .

Hver er uppáhalds barnabókin þín?
Ég man eftir fyrstu bókinni sem ég las og hversu innilega ég hló á meðan. Það var Lína Langsokkur. Margar voru bækurnar sem ég las aftur og aftur sem barn og seinna fyrir dæturnar mínar. Og nýjar bækur bættust við eins og myndskreyttu bækur Claude Pontis. Ég gríp eina af og til og grúfi mig yfir þær til að finna smáatriði í myndunum, gleðjast yfir bröndurum og orðaleikjum, íhuga grundvallarspurningar sem hún fjallar um. Hugmyndaflugið í þessum bókum virðist óendanlegt, bæði í myndum og textum. Að flytja til annars lands þýðir að læra nýtt tungumál, að tala eins og barn með huga fullorðins .Fyrsta árið var erfitt en líka skemmtilegt þegar ég kom frá bókasafninu með fimmtán barnabækur meðal annars bækur Sigrúnar og Þórarins Eldjárn. Dásamlegt að uppgötva nýjar barnabækur á fullorðinsárum. Ég las Nils Holgersson eftir Selmu Lagerlöf næstum þrítug og mér finnst hún enn vera ein af bestu barnabókunum sem ég hef lesið.

Hvað einkennir lestrarvenjur þínar?
Ég er tækifærissinni og gríp flestar tómar stundir til að lesa. Ef ég hefði engum skyldum að gegna gæti ég lesið allan daginn. Nýlega las ég á hundavaði bók sem ég hafði hlaðið niður. Ég kláraði lesturinn um fjögurleytið um nóttina. Viku síðar fékk ég bókina á bókasafninu og las hana aftur. Bók hefur alltaf verið með mér hvert sem ég fer og ég tók allar bækurnar mínar með mér til Íslands sem er nánast eyðieyja í frönskum bókmenntum. En þar leyndist fjársjóður. Nú eru þrjú tungumál í takinu, íslenska, franska og enska. Þríleikur Jóns Kalmans Stefánssonar, Karítas eftir Kristínu Marju Baldursdóttur og bækur Sigurðar Pálssonar hafa nýlega slegist í hóp uppáhaldsbókanna. Lestrarvenjur breyttust í nýjum aðstæðum en ekki endilega til hins verra. Bækur koma úr stafrænum bókasöfnum (La Bibliotheque électronique du Québec, Project Gutenberg) eða úr bókakassa rétt við hornið. Tilviljun ræður oft hvaða bækur fást í hendur eins og hvar rekaviður kemur að landi.

En hvers konar bækur höfða til þín?
Þær eru svo fjölbreyttar. Þær skiptast kannski í tvo flokka: Bækur sem tengjast listum, bókmenntum, bókmenntafræði, heimspeki, mannlegum og félagslegum vísindum annars vegar og hins vegar bækur um náttúru, dýralíf og landkönnun. Í hverjum flokki getur leynst bók sem mun fylgja mér alla ævi eða um skeið. Má nefna sem dæmi teiknimyndabækur. Í Frakklandi njóta þær mikillar virðingar og er úrvalið mikið. Margar eru listaverk sem geta hrært, heillað, skemmt lesendum. Árin líða og ég finn reglulega merkilegar bækur. Í bókabúðinni Nexus keypti ég Nausicaa eftir Hayao Miyazaki. Teikningarnar eru fallegar og sagan mögnuð.

Er einhver bók sem hefur haft mikil áhrif á þig?
Án vafa Biblían. Í tólf ár í kaþólskum skóla var hún lesin fyrir mig næstum á hverjum degi. Mótandi áhrif voru gífurleg á sjálfsmynd, gildi, lífssýn og margt fleira. Á sömu árum las ég aftur og aftur grískar goðsagnir, grísk leikrit og Ódysseifskviðu. Úr því varð mikil ástríða fyrir forngrísku menningunni. Ég lærði latínu og forngrísku af miklum ákafa. Þetta hafði sjálfsagt áhrif á alla þætti m.a. nám, starf, afþreyingu og vináttu. Ég las þýðingar og lærði að þýða marga rithöfunda, gríska og rómverska. Og mér finnst broslegt hversu mikið ég heillaðist af kvæði De Natura Rerum eftir Lucretius sem fagnar náttúrunni og lífinu sem varð til úr atómum án neinna afskipta einhvers guðs.

Áttu þér áhugaverða lestrarmenningu?
Allar minningar í kringum lestur skipta mig máli. 1983 var ár Dostoievskis. 1993 var ár japanskrar skáldsögu, Genji Monogatori eftir „Lady” Murasaki Shikibu. Þar opnaðist nýr heimur, 1000 ára gamall. Allar bækurnar sem ég hef lesið aftur og aftur. Bók Diderots Jacques le Fataliste hefur slegið metin. Af hverju ekki líka Ender´s Game eftir Orson Scott Card, vísindaskáldsaga þar sem mætast sýndarheimur tölvuleikja, samskiptahæfni geimvera og stjörnustríð? Það spillti ekki að lesa hana í tjaldi í Pýreneafjöllum.

En að lokum Pascale er til heimur án bóka?
Það voru og eru enn stórmerkilegir menningarheimar án bóka. Í sjálfsævisögu sinni gefur Amadou Hampaté Bâ innsýn í munnlega sagnahefð sem ríkti sunnan Sahara þar sem hann ólst upp í kringum aldamótin 1900: „Þegar gamall maður deyr í Afríku er það eins og heilt bókasafn sem brennur.” Mér finnst þessi heimur ekki síður heillandi að geta geymt í minni og endursagt sögu orðrétt eftir að hafa heyrt hana einu sinni. Ilionskviða og Ódysseifskviða hafa varðveist í munnlegri geymd áður en þær voru skrifaðar niður og 2700 árum síðar er menningarheimurinn minn bókaheimur.