2.3 C
Selfoss

Um 150 hótelherbergi og 180 íbúðir í bígerð í Hveragerði

Vinsælast

„Stærsta einstaka framkvæmdin í Hveragerði í augnablikinu er án vafa tæplega 3.000 fermetra viðbygging við Hótel Örk sem rúma mun 78 glæsileg herbergi. Með henni verður hótelið það stærsta á landsbyggðinni með 157 herbergi og þar með klárlega flaggskip ferðaþjónustu á Suðurlandi,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, þegar hún er spurð út í helstu framkvæmdir í bæjarfélaginu.

Greinilegt er að ferðaþjónustan er enn í örum vexti því í Hveragerði eru fleiri byggingar fyrirhugaðar sem hýsa munu hótel og gistiheimili auk veitingastaða. Að sögn Aldísar eru allt í allt eru um 150 hótelherbergi á teikniborðinu eða komin á framkvæmdastig í bæjarfélaginu.

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði. Mynd: ÖG.

Mikil eftirspurn er eftir íbúðarhúsnæði í Hveragerði og segir Aldís að framkvæmdir séu annað hvort hafnar eða í bígerð á um 180 íbúðum af ýmsum stærðum og gerðum auk þess sem athafnahúsnæði á nokkrum lóðum er einnig í burðarliðnum. „Hveragerðisbær hefur boðið út umtalsverðar framkvæmdir í gatnagerð og á þeim að ljúka á vormánuðum. Er þar um að ræða fullnaðarfrágang Hjallabrúnar, Lækjarbrúnar og Þelamerkur, frágangs við Heiðmörk og Dynskóga auk lagningu slitlags á göngustíg milli Lyngheiðar og Arnarheiðar.“ Aldís segir að stefnt sé að umtalsverðum viðgerðum á eldri götum sem margar hverjar hafa látið mikið á sjá að undanförnu. Ennfremur séu miklar endurbætur í gangi á fráveitukerfum bæjarins ásamt nýlögnum sem tilheyra Edenlóðinni en þar er nú fyrirhuguð umfangsmikil uppbygging íbúðarhúsnæðis.

„Það er gaman að segja frá því að sundlaugin í Laugaskarði fagnar 80 ára afmæli í júní og verður haldið upp á afmælið með veglegum hætti. Endurbætur á efri hæð sundlaugarhússins hafa verið boðnar út en með þeim er fyrirhugað að endurnýja alla efri hæðina og er það fyrsti áfangi í umfangsmiklum endurbótum sem fyrirhugaðar eru á húsinu og á pottasvæðinu,“ segir Aldís.

Landslagshönnun á svæðinu undir Hamrinum er nú í fullum gangi en þar mun strax í vor verða settur upp svokallaður Ærslabelgur og vonandi fleiri leiktæki fyrir fólk á öllum aldri.

Nýr glæsilegur sex deilda leikskóli var opnaður í Hveragerði á haustmánuðum og í ár verður lokið við frágang utandyra og á bílastæðum.Aldís segir að ekki sé vafi á því að með tilkomu nýs leikskóla hafi bæjarfélagið skipað sér í fremstu röð bæjarfélaga hvað varðar þjónustu við barnafólk en börn frá 12 mánaða aldri fá nú tilboð um leikskólavistun í samræmi við reglur þar um.

„Það er bjartsýni og gleði ríkjandi í Hveragerði enda er vorið á næsta leyti eftir nokkuð langan og strangan vetur. Hamarshöggin dynja víða, púðar eru valtaðir og kranar teygja sig til himins. Það er skemmtileg sjón og ánægjulegt að margir sjá Hveragerði sem ákjósanlegan stað til búsetu og til að reka fyrirtæki en það er einmitt merki þess að vel gangi í samfélaginu þegar þannig háttar til,“ segir Aldís að lokum.

 

Nýjar fréttir