-8.2 C
Selfoss

Fjölbreyttari og sterkari miðbæjarheild á Selfossi

Vinsælast

„Gangi undirbúningur og framkvæmdir að óskum ættu verslanir og veitingastaðir í fyrsta áfanga að geta opnað strax næsta sumar“, segir Guðjón Arngrímsson, einn af forvígismönnum Sigtúns þróunarfélags sem er nú að leggja síðustu hönd á forvinnu vegna uppbyggingar á nýja miðbæjarþorpinu á Selfossi.

„Samþykkt bæjarstjórnar Árborgar á skipulagi reitsins og framkvæmd við þennan fyrsta hlut verksins er stór áfangi. Það var einnig jákvætt að þetta var samþykkt með auknum meirihluta. Nú er okkur ekkert að vanbúnaði, verkefnið er að fullu fjármagnað, samið hefur verið við Borgarverk og Jáverk um framkvæmdina og þessir frábæru sunnlensku verktakar eru startholunum, tilbúnir þegar kallið kemur.“

Guðjón Arngrímsson, einn af forvígismönnum Sigtúns þróunarfélags.

Hverjar eru helstu áherslurnar í fyrsta áfanganum?
„Fyrst er að telja gatnagerð á öllum reitnum. Þá er um að ræða aðkomuna frá hringtorginu við Ölfusárbrú og þar eru fyrst og fremst hús sem tengjast sögu Selfoss, meðal annars húsið Sigtún, þar sem Kaupfélag Árnesing hóf rekstur sinn, og Gamla mjólkurbúið, hin gamla táknmynd Selfoss, það er að segja hið upprunalega Mjólkurbú Flóamanna. Það verður stærsta byggingin í áfanganum gullfalleg bygging sem teiknuð var af Guðjóni Samúelssyni. Þar verður metnaðarfull sögusýning í samstarfi við MS um skyrið, mjólkina, íslenskan landbúnað og matarmenningu sem gerir Selfoss að alþjóðlegum heimavelli þessar vöru sem verður sífellt vinsælli víða um heim. Húsin í þessum fyrsta áfanga munu mynda skjólsælt torg fyrir framan Gamla mjólkurbúið og veitingastaðir munu hafa þar útiaðstöðu fyrir gesti sína. Þar ætti að geta orðið gott mannlíf.“

Hafa hugmyndir um uppbygginguna tekið breytingum nú þegar þær eru að komast á framkvæmdastig?
„Nú eru þrjú ár síðan þessar hugmyndir voru fyrst kynntar. Þær hafa satt að segja tekið miklum breytingum á þessum þróunartíma. Við höfum haldið marga fundi og kynningar og óskað eftir og fengið góðar og gagnlegar athugasemdir frá áhugasömu heimafólki. Við höfum gert okkur far um að taka tillit til þeirra. Ég nefni bara sem dæmi að við höfum lagt aukna áherslu á skjólmyndum, bæði með sveigðum götum og með því að það munu myndast ekki færri en þrenn torg sem skapa skjól og huggulegheit. Eins og lesendur blaðsins vita hefur bæjargarðurinn verið stækkaður og okkur er mikið í mun að milli hans og nýju byggðarinnar myndist lifandi og opin tengsl. Þá hefur orðið sú breyting að nú er gert ráð fyrir fleiri íbúðum til útleigu en var í upphaflegum áætlunum. Þetta er aðeins nokkur atriði af mörgum öðrum og auðvitað er reynt að taka eins og unnt er mið af þörfum þeirra sem lýst hafa vilja til þess að taka hús til leigu undir margvísleg viðskipti og rekstur.“

Er miðbæjarbyggðin fyrst og fremst miðuð við það að lokka erlenda ferðamenn á Selfoss?
„Svarið við þessari spurningu er nei. Ef allt fer að óskum munu erlendir ferðamenn þó sækjast eftir því að hafa viðdvöl á Selfossi. Þeir vilja nefnilega vera þar sem heimafólki líkar lífið. Við þróun verkefnisins höfum við fyrst og fremst hugsað um að þarfir íbúa í Árborg og á Suðurlandi ráði ferðinni. Markmiðið er að auka gæði Selfoss sem bæjarfélags með fjölbreyttari og sterkari miðbæjarheild. Þar límir nýi kjarninn saman heild sem nær frá sundlauginni um bæjargarðinn, gegnum miðbæjarþorpið yfir að hringtorginu, Hótel Selfossi, Tryggvaskála, verslunarmiðstöðinni, ráðhúsinu, Landsbankanum og Austurveginn. Tilgangurinn er að gera góðan bæ betri og gera miðbæ Selfoss samkeppnishæfari en hann er í dag. Bæjarfélög eru í samkeppni á margan hátt og eitt af því sem dregur að eru sterkir miðbæir. Líki heimafólki lífið þá munu höfuðborgarbúar, sumarbústaðaeigendur á Suðurlandi og aðrir innlendir ferðamenn heimsækja okkur í síauknum mæli. Og þegar þar er komið sögu er enginn vafi að erlendu ferðamennirnir munu koma, því þeir vilja vera þar sem heimamenn eru.“

Hverjir eru helstu þættirnir í þeirri hugmyndafræði sem lögð er til grundvallar fyrir þessa miðbæjarbyggð?
„Í fyrsta lagi vil ég segja að áhugi á menningu, sögu og góðum mat er ofarlega í huga margra ekkert síður en eftirsókn eftir náttúruskoðun, fjalla- og ævintýraferðum. Margir blanda þessu saman í hæfilegum skömmtum. Þetta á við um fólk upp og ofan og ekki síst ferðafólk, enda er ferðafólk ekki einhver sérstök tegund heldur fólk eins og við. Miðbær Selfoss verður einstakt fyrirbæri í sinni röð á Suðurlandi, lifandi miðbær fyrir heimafólk með allri venjulegri miðbæjarstarfsemi ásamt hóteli, söfnum og sýningum. Það verður eftirsóknarvert fyrir gesti og gangandi að koma þar og vera.

Í öðru lagi segir reynslan frá öðrum bæjarfélögum, hérlendis og erlendis, okkur að almenningur vill halda í það gamla í miðbæjarkjörnum og fellir sig ágætlega við það sem endurreist er í gömlum stíl. Fyrir okkur vakir að skapa umhverfi með hlýlegum torgum þar sem horfnir dýrgripir úr byggingarsögu landsins hafa um sig áru sem laðar fólk að. Gömlu húsin munu fá verðug verkefni um leið og þau minna okkur á verklag og listfengi horfinna kynslóða. Þau verða einnig vettvangur til þess að segja sögu húsanna og íbúa þeirra.

Í þriðja lagi er það lykilatriði að öll húsin þrjátíu verða byggð í samfellu og leigð út af sama aðila undir margvíslega verslunar-, viðskipta- og þjónustustarfsemi. Auk þess er gert ráð fyrir að á efri hæðum verði íbúðir af ýmsum stærðum og gerðum. Þetta tryggir þann heildarbrag á miðbænum sem stefnt er að og jafnvægi milli þeirra þátta sem þurfa að vinna saman svo úr verði lifandi miðbær.

Í fjórða lagi, og þá er hugsað til ferðaþjónustu, er mjög mikilvægt að byggja samhliða upp innviði eins og gistingu annars vegar og afþreyingu og menningarstarfsemi hins vegar. Um þetta er mikið fjallað í alþjóðlegri umræðu. Áður lögðu bestu hótelin upp úr því að vera afsíðis, en nú er lögð áhersla á að draga ferðamenn og heimamenn á hverjum stað saman. Okkar verkefni er í þessum anda.“

Hvernig sérðu fyrir þér framtíð Selfoss í ferðaþjónustu?
„Ég er mjög bjartsýnn á að Selfoss og Árborg geti aukið hlut sinn í ferðaþjónustu á Suðurlandi. Nærsvæðið, árbakkarnir og ströndin hafa ónýtta möguleika þar sem Selfoss getur verið miðpunkturinn. Beintenging við Leifsstöð um Suðurstrandarveg hefur í sér fólginn möguleika til þess að gera út á Suðurlandsferðir frá Selfossi. Með auknum hótelkosti og umferðarmiðstöð ætti dvöl á Selfossi með fjölda nálægra áfangastaða að verða góð söluvara. Það hefur verið sáð til margra þessara hluta og ég spái því að á næstu árum muni spretta upp fjölskrúðugur gróður á þessu sviði í Árborg,“ segir Guðjón að lokum.

 

Nýjar fréttir