-4.1 C
Selfoss

Slæmt ástand vegakerfisins í Bláskógabyggð

Vinsælast

Mikil umræða hefur átt sér stað um slæmt ástand vegakerfisins í Bláskógabyggð að undanförnu. Að sögn Helga Kjartanssonar, oddvita Bláskógabyggðar, er ástandið mjög slæmt og vegirnir koma mjög illa undan vetri. Ástandið hafi ekki átt að koma neinum á óvart enda búið að benda á í mörg ár í hvað stefndi. Helgi segir að djúpar og hvassar holur hafi myndast í klæðningum mjög víða eftir að hlýna fór í veðri sem hafi skemmt bíla og tjón sé umtalsvert. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar tók ástand vegakerfisins fyrir á fundi sínum 1. mars sl. og bókaði eftirfarandi:

Helgi Kjartansson oddviti Bláskógabyggðar. Mynd: ÖG.

„Sveitarstjórn Bláskógabyggðar lýsir yfir þungum áhyggjum vegna ástands vegakerfisins og áningarstaða innan sveitarfélagsins. Stofnbrautir eru víða mjög illa farnar og skapa verulega hættu fyrir vegfarendur. Daglega verða vegfarendur fyrir óhöppum við að fara um vegina s.s. að sprengja dekk og eyðileggja felgur. Slík óhöpp skapa einnig mikla hættu þeirra vegfarenda sem eru að ferðast um á sama tíma. Stofnvegir s.s. Þingvallavegur og Biskupstungnabraut eru í það slæmu ástandi að telja má ábyrgðarhlut að leyfa umferð um þá vegi. Stóra vandamálið er að það er enginn annar vegur sem getur tekið við þessari miklu umferð. Rétt er að benda á í þessu sambandi, að umferðaraukning á Suðurlandi á árinu 2016 er 21% miðað við fyrra ár og 10,1% á árinu 2017.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar skorar á stjórnvöld og Vegagerðina að bregðast við þessum brýna vanda og ráðast í aðgerðir til úrbóta tafarlaust. Það er ekki valkostur að sitja hjá aðgerðarlaus þegar gestum og íbúum er búinn slík hætta sem skapast hefur. Ríkisvaldið verður að tryggja Vegagerðinni fjármagn til þess að ráðast í þær úrbætur til að tryggja lágmarksöryggi vegfarenda. Eins og staðan er núna þá er þetta mikill ábyrðarhlutur sem hvílir á ríkisvaldinu og Vegagerðinni sem veghaldari.”

Í framhaldi af bókun sveitarstjórnar bauð sveitarstjórn þingmönnum Suðurkjördæmis, samgöngunefnd Alþingis, Vegagerðinni, Samgöngustofu og fleiri aðilum í kynnisferð um helstu stofnvegi sveitarfélagsins 6. mars sl. Tilgangur ferðarinnar var að sýna þessum aðilum svart á hvítu hvernig ástand veganna er. Að sögn Helga Kjartanssonar, oddvita Bláskógabyggðar, tókst ferðin vel og skilningur aðila sem fóru í ferðina á slæmu ástandi vegakerfisins sé sá hinn sami. Helgi segir að ástand veganna sé með þeim hætti að bregðast þurfi við sem allra fyrst ef ekki á illa að fara.

Nýjar fréttir