-2.2 C
Selfoss

Valgeir Guðjónsson heldur sína árlegu Fuglatónleika um páskana í Eyrarbakkakirkju

Vinsælast

Valgeir Guðjónsson heldur árlega Fuglatónleika sína um páskana í Eyrarbakkakirkju. Ásta Kristrún í Bakkastofu segir að hugmyndin að þessari hefð, Fuglatónleikum um páska, hefði kviknað þegar þau Valgeir fluttust á Eyrarbakka. Þau hefðu verið hugfangin af sögu þorpsins og ekki síður af náttúrunni og Fuglafriðlandinu allt um kring.

„Eggjaskúrinn við Byggðasafnið, vestan við Húsið, á sér magnaða sögu. Hann er tákn snemmbærra náttúruvísinda sem skiluðu sér síðar inn í Náttúrugripasafn Íslands. Á blómaskeiði Eyrarbakka gerðust undur og stórmerki á mörgum sviðum. Hvort sem það var joð sem unnið var úr þangi í lækingaskyni eða það að elsti barnaskóli landsins var stofnaður á þessum stað,“ segir Ásta. Hún bætir við að margt megi telja markvert tengt náttúrufræði frá fyrri tíð svo sem merkt steinasafn fólksins í Húsinu. Það hafi verið gefið safni fyrrum Lærða skólans, sem nú heitir Menntaskólinn í Reykjavík.

Ofurfagur æðarkóngur.

„Á Eyrarbakka var ekki aðeins ein stærsta verslun landsins, heldur hélt tónlistin á Suðurlandi innreið sína hér á Eyrarabakka. Fyrsta píanóið kom til landsins með frú Sylvíu Thorgrimsen sem var orðin stórpíanisti í Kaupmannahöfn en flutti heim á ný með eiginmanni sínum verlsunarstjóra Lefolii verslunarinnar.“

Valgeir hefur samið gullfalleg grípandi lög um íslenska fugla við kvæði skáldsins góða, Jóhannesar úr Kötlum. Í gegnum lög og texta geta gestir í Eyrarbakkakirkju kynnst þekktum íslenskum fuglum um páskana og læra örlítið um líf þeirra og kúnstir. Líf fugla höfðar til allra aldurshópa enda eru þeir um margt mannlegir í hegðun. Þannig er upplagt að tengja kynslóðir saman með tónlist og fuglum nú í páskfríinu, með vorið handan við hornið.

Tónleikarnir verða á Skírdag og laugardaginn 31. mars og hefjast báða dagana kl. 15. Miðsala er á tix.is og við innganginn.

Nýjar fréttir