-1.6 C
Selfoss

Söguganga og sýningar í Hveragerði um páskana

Vinsælast

Njörður Sigurðsson sagnfræðingur fer fyrir sögugöngu um Hveragerði á föstudaginn langa. Þar mun hann segja frá byggðasögu bæjarins. Lagt verður af stað frá Sundlauginni Laugaskarði kl. 14 en sundlaugin er opin alla páskadagana kl. 10–17:30.

Fjölbreyttar sýningar
Í Hveragerði er margt markvert  að sjá og auðveldlega má eyða drjúgum tíma  í að skoða það sem bærinn hefur uppá að bjóða. Margar skemmtilegar gönguleiðir eru í bænum og er til dæmis tilvalið að ganga á milli söguskilta og fá þannig glögga mynd af sérstakri sögu Hveragerðisbæjar. Í Lystigarðinum er sýningin Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin. Sýningin dregur upp mynd af tilurð skáldanýlendunnar í Hveragerði upp úr 1940. Listasafn Árnesinga er ávallt með metnaðarfullar sýningar sem gaman er að skoða. Nú eru þar sýningar á verkum í eigu safnsins en þar er í forgrunni fjöldi verka sem safnið hefur eignast nýlega eftir Valtý Pétursson. Auk þess sýnir Borghildur Óskarsdóttir verk í safninu þar sem athyglinni er beint að Þjórsá en þar veltir hún upp pólitískum spurningum um samband manns og náttúru. Steinasafnið Ljósbrá er síðan nýtt safn í Hveragerði þar sem sjá má fágætar steintegundir og fræðast um ötula steinasöfnun hjónanna Sigrúnar Stefánsdóttur og Sigurðar Pálssonar og afkomenda þeirra.

Veitingastaðir hafa opið
Veitingastaðir og verslanir í Hveragerði verða með opið alla páskadagana og því er tilvalið að gera sér ferð í blómabæinn og njóta alls þess sem þar er á boðstólum.

Nýjar fréttir