-1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Leigusamningur um aukin jarðhitaréttindi í landi Stóra-Ármóts

Leigusamningur um aukin jarðhitaréttindi í landi Stóra-Ármóts

0
Leigusamningur um aukin jarðhitaréttindi í landi Stóra-Ármóts

Föstudaginn 23. mars sl. undirrituðu Selfossveitur bs. og Búnaðarsamband Suðurlands leigusamning um aukin jarðhitaréttindi í landi Stóra-Ármóts.

Í september árið 2000 gerðu Búnaðarsamband Suðurlands og Selfossveitur með sér samning um einkarétt Selfossveitna til jarðhitarannsókna, borunar eftir jarðhita og til virkjunar og hagnýtingar í hluta af landi Stóra-Ármóts. Á grundvelli þessa samnings hafa Selfossveitur starfrækt orkuvinnslu í landi Stóra-Ármóts í Lambhaga við Ósabotna frá ársbyrjun 2002. Þar eru þrjár vinnsluholur ÓS-1, ÓS-2 og ÓS-3. Gert er ráð fyrir nokkurri aukningu á vinnslu við Ósabotna á næstu misserum en vinnslan þar nálgast það hámark sem horft er á til langs tíma.

Selfossveitur eru að skoða möguleika á frekari öflun jarðhitavatns m.a. í ljósi hratt vaxandi íbúafjölda og umsvifa í Árborg. Ráðgjafar Selfossveitna á sviði jarðhitarannsókna, ÍSOR, telja álitlegt að skoða frekari jarðhitaleit og hitastigulsboranir upp með Ölfusá og Hvítá.

Með samningnum sem undirritaður var sl. föstudag var samið um stækkun þess landsvæðis sem áður var samið um og nær leigusamningurinn yfir jörðina í heild sinni að frádregnu landi undir sérstök afnot landeiganda. Í kjölfar samningsins er gert ráð fyrir að hefja rannsóknarboranir upp með Ölfusá og Hvítá í sumar.

Undanfarnar vikur hefur staðið yfir rannsóknarborun við Ósabotna með það að markmiði að staðsetja þar fjórðu vinnsluholuna ÓS-4 sem áætlað er að bora síðar á þessu ári.