3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Beinþynning og beinbrot

Beinþynning og beinbrot

0
Beinþynning og beinbrot
Guðný Bogadóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Vestmannaeyjum

Töluvert hefur verið um beinbrot í hálkuslysum undanfarna mánuði og þá jafnframt vaknað upp spurningar hjá þolendum um hvort þeir séu með beinþynningu.

Hvað er beinþynning. Beinþynning verður þegar massi beinanna minnkar og uppbygging beinanna breytist þannig að hætta er á að bein brotni við álag sem ekki myndi valda brotum í ,,heilbrigðum“ beinum.

Beinþynning er einkennalaus og uppgötvast oft ekki fyrr en við það að bein brotna og er áætluð að 1000–1200 beinbrot á ári megi rekja til beinþynningar. Talið er að þriðja hver kona og fimmti hver karlmaður yfir fimmtugt verði fyrir beinþynningu einhvern tíma á ævinni.

Áhættuþættir beinþynningar.
Erfðir:    Aukin hætta er hjá þeim sem eiga foreldra sem greinst hafa með beinþynningu.

Aldur:    Beintap eykst með hækkandi aldri hjá bæði konum og körlum en tíðni beinþynningar er algengari hjá konum.

Snemmbær tíðahvörf

Hreyfingarleysi

Reykingar

Lélegt mataræði:   Þá aðallega skortur á kalki og D-vítamíni

Ákveðin lyf og sjúkdómar:   Geta valdið beinþynningu og þá þarf gjarnan að gefa lyf til mótvægis

Fólki af hvítum kynstofni og grannt fólk

Greining
Besta leiðin til að mæla beinþéttni er svonefnd DEXA-aðferð og er framkvæmd á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Ómskoðun af hæl getur gefið vísbendingu um góðan beinhag hjá eldra fólki en er ekki nothæf til að greina beinþynningu.

Hverjir ættu að fara í beinþéttnimælingu
Þeir sem eru með áhættuþætti fyrir beinþynningu.

Einstaklingar sem til dæmis hafa framhandleggsbrotnað við lágt fall (standandi eða sitjandi á stól) , eða fengið samfallsbrot á hrygg.

Þar sem röntgenmynd hefur vakið grun um beinþynningu.

Fólk með ákveðna sjúkdóma eða á lyfjum sem leitt geta til beinþynningar.

Leiðir til að verjast beinþynningu.
Regluleg hreyfing, helst 30–40 mín á dag þar sem lyftingar eða styrktarþjálfun er hluti af hreyfingunni. Gæta að mataræði innihaldi nægilegt kalk og vítamín D. Hætta að reykja og að neyta áfengis í hófi

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Guðný Bogadóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Vestmannaeyjum.