-2.2 C
Selfoss

Stundum er hundleiðinlegt í pólitík

Vinsælast

Ungmennaráð eiga að gefa kost á sér sem ráðgjafar stofnana hins opinbera í málefnum ungs fólks. Stofnanir eiga líka að leita til ungmennaráða til að innleiða hugsun samtímans í starf sitt og halda starfinu við. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Hann hélt erindi í dag á ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði sem Ungmennaráð UMFÍ stendur fyrir á Hótel Borealis í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Í erindinu var Sigurði Inga tíðrætt um skyldur fólks sem samfélagsþegar og skyldur þeirra til þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. „Það er mikið af skyldum sem eru hluti af því að búa til samfélag,“ sagði hann en ítrekaði að stundum geti skyldurnar verið hundleiðinlegar.

„Fólk leggur oft á sig miklu vinna sem fyrirfram er ekki skemmtileg. Stundum er hundleiðinlegt í pólitík og þá langar mann til að gera eitthvað allt annað, til dæmis að vera dýralæknir. En það er önnur hlið á þátttöku í pólitík, það eru skyldurnar sem felast í því að vera samfélagsþegn. En drifkrafturinn er sá að geta haft áhrif,“ sagði hann en Sigurður Ingi vann sem dýralæknir á Suðurlandi frá 1990 til 2009 þegar hann hóf þátttöku í sveitarstjórnarmálum og fór eftir það inn á þing.

Endurnýjun skiptir máli
Sigurður Ingi sagði ungmennaráð gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Þau endurnýist reglulega og veiti stofnunum víðara sjónarhorn á viðfangsefnin en ella.

„Endurnýjunin skiptir máli. Ef menn endurnýja sig ekki, hvort sem það er stjórnmálaflokkur eða stofnun, þá deyja þeir út,“ sagði hann og benti á að þrátt fyrir allt geti verið erfitt fyrir stofnanir og félagasamtök að ná til ungmenna um allt land. Af þeim sökum verði ráð eins og Ungmennaráð UMFÍ, sem er með meðlimum um allt land, að bjóða sig fram sem ráðgjafahópur og láta þannig rödd sína heyrast.

Ráðstefna fyrir 16–25 ára
Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði hefur verið haldin árlega síðan árið 2009. Þar er lögð áhersla á að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í leik og starfi og að einstaklingar geti styrkt sjálfsmynd sína. Ráðstefnan hefur verið haldin árlega frá árinu 2009 og hefur því fest sig í sessi á meðal mikilvægustu viðburða fyrir ungt fólk á Íslandi.

Yfirskrift ráðstefnunnar 2018 er Okkar skoðun skiptir máli!

Ungmennaráð UMFÍ hefur veg og vanda að ráðstefnunni.

Nýjar fréttir