Þann 3. mars sl. var Tækniskólanum gefin vegleg gjöf til verklegrar kennslu nemenda í pípulagningum. Gjöfin samanstendur af hitaveitugrind, skáp, hemli og forðakút sem ætlað er til uppsetningar í sumarhús þar sem hitaveita er takmörkuð gegnum hemil. Að gjöfinni standa Gjöfull varmagjafi, Tengi, Blikksmiðjan Vík og Umhverfis- og tæknisvið Uppsveita (Hitaveita Grímsnes- og Grafningshrepps).
„Okkur sem stöndum að gjöfinni þykir mikilvægt að nemendur í iðngreinum hafi aðgang að góðum búnaði til að vinna með í verklegri kennslu, enda eru það þessir nemendur sem munu síðan lifa og starfa í þeirri iðn sem þeir hafa valið sér. Okkur þótti því tilvalið að gefa Tækniskólanum búnað sem notaður er á markaðnum í dag sem án efa kemur sér vel fyrir nemendur að námi loknu,“ segir Sandra Björg Gunnarsdóttir, upplýsinga- og markaðsfulltrúi Gjöfuls varmagjafa.
Sumarhúsaeigendur eiga það margir sameiginlegt að vera með hitaveitu sem gefur að jafnaði 3–5 lítra af heitu vatni gegnum hemil. „Rennsli heita vatnsins í sumarhúsum er því ekki á pari við það sem gerist og gengur í þéttbýlum landsins“ segir Gísli Tómasson, pípulagningameistari.
Algengt er að hitaveita sé leidd beint inn á neysluvatnskerfi sumarhúsa, en það skapar einnig aukna hættu á kostnaðarsömum tjónum. Í því samhengi er vert að benda á að hitaveituvatn er ekki skilgreint sem neysluvatn og því ekki æskilegt að leiða það inn á neysluvatnslagnir innanhúss. Efnainnihald í hitaveituvatni veldur mikilli útfellingu í og við blöndunartæki sem skerðir endingartíma þeirra með tilheyrandi kostnaði. Hægt er í einhverjum tilfellum að kaupa aukið magn af heitu vatni gegnum hemilinn en þó svo sé gert verður þrýstingur á heitu vatni aldrei til jafns við það kalda og aukinn fastur kostnaður leggst á sumarhúsaeigendur í kjölfarið.
„Þetta er það sem búnaðurinn í heild sinni kemur í veg fyrir“ segir Gísli en tenging forðakúts við hitaveitugrind með hemli sér til þess að jafn þrýstingur verður á heitu og köldu neysluvatni. Með þessari samsetningu búnaðar er hægt að koma í veg fyrir lakan endingartíma neysluvatnslagna og blöndunartækja og koma í veg fyrir kostnaðarsöm tjón sem fylgja því þegar hitaveituvatn er tengt beint inn í lagnir húsa. Bæði kennarar og skólastjóri tóku undir þau orð Söndru Bjargar að gjöfin muni nýtast vel nemendum en að auki benti Böðvar á að fyrirtæki ættu að sjá hag sinn í að veita gjafir sem þessa, enda uppskeri fyrirtæki sterkari iðnmenntað fólk út á vinnumarkaðinn í kjölfarið.