-1.6 C
Selfoss
Home Fréttir Við ætlum að opna bókhald Árborgar

Við ætlum að opna bókhald Árborgar

0
Við ætlum að opna bókhald Árborgar
Tómas Ellert Tómasson.

Í anda opins lýðræðis og gagnsæis við rekstur Árborgar ætlar Miðflokkurinn í Árborg að opna bókhald sveitarfélagsins upp á gátt í samræmi við nútímalega stjórnunarhætti opinberra aðila líkt og mörg sveitarfélög á landinu hafa gert. Það yrði unnið á þann hátt að birta það sem kallast „opin mælaborð“ á vef Árborgar sem sækir gögn beint í bókhaldskerfi sveitarfélagsins.

Opið bókhald tryggir gegnsæ vinnubrögð hvar íbúar Árborgar geta fylgst með hvað bæjarstjórn er að framkvæma. Með því að opna bókhald sveitarfélagsins myndast einnig hvati fyrir kjörna fulltrúa sem og starfsmenn sveitarfélagsins til að taka upplýstar ákvarðanir um notkun fjármuna sem skattgreiðendur greiða í formi útsvars, fasteignaskatta og gjalda ýmiskonar.

Upplýsingastefna fyrir Árborg

Miðflokkurinn í Árborg ætlar að beita sér fyrir því að upplýsingastefna verði samþykkt fyrir Sveitarfélagið Árborg. Upplýsingastefnunni verði ætlað að gera aðgang að upplýsingum og þjónustu við íbúa greiðari, skilvirkari og markvissari. Stefnan muni ná til allra sviða sveitarfélagsins, ráða og nefnda, kjörinna fulltrúa; Selfossveitna, B-hluta félaga og byggðasamlaga í meirihlutaeigu Árborgar.

Upplýsingastefnu Sveitarfélagsins Árborgar mun svo verða framfylgt með því að uppfæra núverandi heimasíðu sveitarfélagsins til nútímahorfs. Kostnaður við að koma slíku í framkvæmd er brotabrot af þeim ávinningi sem felst í því að opna og gera stjórnsýsluna aðgengilega fyrir íbúana. Það má til dæmis bjóða verkið út innanlands í formi verðfyrirspurnar eða opins útboðs til að fá hagstæðari verð. Einnig má horfa til annarra sveitarfélaga um hvernig vinna þeirra við að koma á gagnsærri stjórnsýslu hefur farið fram og spara með því fjármuni. Lausnirnar eru til, það þarf einungis að heimfæra þær yfir á Sveitarfélagið Árborg.

 

Tómas Ellert Tómasson, oddviti framboðs Miðflokksins í Árborg.