-1.6 C
Selfoss

Svansvottun í Héraðsskólanum á Laugarvatni

Vinsælast

Héraðskólinn á Laugarvatni hefur undanfarið ár unnið að Svansvottun á rekstri sínum og hefur staðist kröfur vottunarinnar. Elísabet Björney Lárusdóttir hjá Björney Umhverfisráðgjöf hefur leitt þá vinnu ásamt Sverri Steini Sverrissyni. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra veitti Héraðsskólanum vottunina fyrir hönd Umhverfisstofnunar við hátíðlega athöfn föstudaginn 16. mars síðastliðinn.

Svanurinn er hið opinbera umhverfismerki fyrir Norðurlönd og er í dag leiðandi umhverfismerki á heimsvísu. Það nýtist sem tæki til að innleiða aðgerðir til að draga úr rekstrar- og umhverfiskostnaði vegna orku- og efnanotkunar, myndunar úrgangs og fleiri þátta sem tengjast daglegum rekstri fyrirtækja. Hægt er að fá Svansvottun í fjölmörgum vöru- og þjónustuflokkum og er einn þeirra sérstaklega hannaður fyrir hótel, veitingarrekstur og ráðstefnurými. Með Svansvottun gefst fyrirtækjum í hótelrekstri tækifæri á að innleiða ferla og aðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifum rekstursins. Fyrirtæki sem fá Svansvottun öðlast tækifæri til að stunda grænan rekstur og vera betur í stakk búin til að takast á við strangari umhverfiskröfur framtíðarinnar og að sama skapi vera jákvæð ímynd í umhverfismálum og stuðla að vitundarvakningu í málaflokknum.

Á Íslandi eru eingöngu þrettán fyrirtæki í hótelgeiranum sem hafa fengið Svansvottun. Á Suðurlandi eru einungis tvö Svansvottuð hótel, annars vegar Hótel Eldhestar og hins vegar Hótel Fljótshlíð. Héraðskólinn á Laugarvatni verður því þriðja hótelið á Suðurlandi til að fá Svansvottun.

Nýjar fréttir