-8.2 C
Selfoss
Home Fréttir Við ætlum að skapa sátt um störf bæjarstjórnar í Árborg

Við ætlum að skapa sátt um störf bæjarstjórnar í Árborg

0
Við ætlum að skapa sátt um störf bæjarstjórnar í Árborg
Tómas Ellert Tómasson.

Sveitarfélagið Árborg hefur margvíslegum skyldum og hlutverkum að gegna gagnvart íbúum sínum. Þær skyldur helstar eru bundnar í lög og einnig gegnir sveitarfélagið mikilvægu samfélagslegu hlutverki með því að sinna hagsmunagæslu fyrir íbúana og efla þátttöku þeirra í sameiginlegum málum sveitarfélagsins, t.d. með hverfafélögum og íbúakosningum um sameiginleg mál er varða alla íbúa sveitarfélagsins s.s. í skipulagsmálum.

Hlutverk Árborgar hefur eins og gefur að skilja verið að þróast og breytast á undanförnum árum vegna yfirfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga og annarra utanaðkomandi þátta líkt og aukningu ferðamannstraums til landsins í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli.

Meðal mikilvægustu verkefna sveitarfélagsins eru: skóla- og fræðslumál, félagsþjónusta; umhverfis- og tæknimál, skipulags- og byggðamál; kjara- og starfsmannamál og lýðræðis- og mannréttindamál.

Stjórnsýsla sveitarfélaga

Sveitarstjórnarlögin innihalda meginreglur um stjórnsýslu sveitarfélaga. Stjórnsýslu einstakra sveitarfélaga má síðan útfæra nánar í sérstökum samþykktum. Sveitarstjórnir eiga einnig að setja sér reglur um ýmis málefni, svo sem siðareglur, reglur um opinber innkaup, skólastefnu, jafnréttisáætlanir o.s.fr.v.. Sveitarstjórnum er að auki heimilt að setja sér nánari reglur um einstök málefni. Flestar reglur og samþykktir sem Sveitarfélagið Árborg hefur sett sér má nálgast á heimasíðu sveitarfélagsins www.arborg.is.

Siðareglur

Siðareglur gegna mikilvægu hlutverki í stjórnsýslu sveitarfélaga. Sveitarfélagið Árborg hefur sett kjörnum fulltrúum sínum siðareglur. Í annarri grein siðareglna Sveitarfélagsins Árborgar er fjallar um starfsskyldur kjörinna fulltrúa segir m.a.:

„Kjörnir fulltrúar gegna störfum sínum af alúð og samviskusemi og gæta hagsmuna Sveitarfélagsins Árborgar. Í störfum sínum er kjörinn fulltrúi bundinn af lögum, reglum og samþykktum sveitarfélagsins, sem og sannfæringu sinni.“; ennfremur: „Kjörnir fulltrúar gæta þess að framkvæmd stjórnsýslu og rekstrar sveitarfélagsins sé ávallt eins og best verður á kosið“. Kjörnir fulltrúar undirgangast svo þessar siðareglur með undirskrift sinni.

Innkaupareglur

Sveitarfélagið Árborg setti sér innkaupastefnu og innkaupareglur árið 2008 sem síðast voru enduskoðaðar árið 2014. Tilgangurinn með innkaupareglunum er eins og segir orðrétt í 1.gr. þeirra:
„Reglum þessum er ætlað að stuðla að því að Sveitarfélagið Árborg hagi innkaupum sínum í samræmi við góða viðskiptahætti og tryggja að stjórnsýsla á sviði innkaupa sé vönduð“.
Í 4. Grein sömu reglna segir um samninga og fjárhæðir:

„Almennt skal beita útboðum við innkaup þegar áætluð fjárhæð innkaupa vegna verklegrar framkvæmdar er yfir 28 milljónir kr., 14,9 milljónir kr. þegar um þjónustu er að ræða og 11,5 milljónir kr. þegar um vörukaup er að ræða. Öll viðmiðunarverð eru með virðisaukaskatti.“

Miðflokkurinn í Árborg ætlar að vinna eftir sveitarstjórnar- og stjórnsýslulögum og virða þær reglur og samþykktir sem Árborg hefur sett sér. Þannig skapast sátt um störf bæjarstjórnar í Árborg.

Tómas Ellert Tómasson, oddviti framboðs Miðflokksins í Árborg.