Selfyssingar töpuðu fyrir Fram í undanúrslitum (Final 4) í Coca-colabikarnum á föstudag með einu marki. Leikurinn var æsispennandi og fór í framlengingu og vítakeppni og endaði 31:32 fyrir Fram.
Leikurinn var jafn og spennandi allt frá byrjun. Jafnt var á öllum tölum upp í 10:10. Selfoss komst þá í 13:10 og leiddi með þremur mörkum í hálfleik 15:12.
Síðari hálfleikur fór rólega af stað en Framarar náðu að vinna upp muninn með góðri vörn og markvörslu og jöfnuðu í 17:17. Síðustu tíu mínundurnar voru afar spennandi. Fram var yfir 21:23 þegar skammt var eftir en Selfoss náði að jafna í 23:23. Fram skoraði reyndar mark um leið og flautan gall en það var ekki dæmt gilt.
Spennan hélt áfram í framlengingunni en hún endaði 27:27. Selfoss fékk tækifri til að tryggja sér sigurinn undir lokin en það tókst ekki. Í vítakeppnini skoruðu Framarar úr öllum fimm vítum sínum. Selfyssingar skoruðu úr fjórum. Eitt vítakastið fór í stöngina og það réði úrslitum í leiknum.
Þetta var frekar súrt tap fyrir Selfyssinga en fjöldi manns lagði leið sína í Höllina og studdi dyggilega við liðið. Næsta verkefni er útileikur við FH í Kaplakrika sunnudaginn 18. mars kl. 19:30. Þangað mætir án efa vaskur hópur sem sýnir úr hverju hann er gerður.