2.3 C
Selfoss
Home Fréttir Íbúakosning – miðbæjarskipulag

Íbúakosning – miðbæjarskipulag

0
Íbúakosning – miðbæjarskipulag
Aldís Sigfúsdóttir.

Borið hefur á því að íbúar Árborg séu ósáttir við nýsamþykkt miðbæjarskipulag fyrir Selfoss. S.l. haust söfnuðust um 800 undirskriftir til að mótmæla þessu skipulagi sem breytti litlu. Fólk mótmælir þessu af breytilegum sjónarmiðum, sumum finnst vera leyft allt of mikið byggingarmagn, aðrir vilja ekki eftirlíkingar af gömlum húsum, enn aðrir vilja hafa miðbæjargarðinn stærri fyrir ört vaxandi bæ, þá vilja sumir ekki miðaldakirkjuna o.s.frv. En miðbærinn er hjarta bæjarins. Ennfremur skiptir það máli hvernig bærinn tekur á móti fólki er það kemur inn í bæinn. Stór grassvæði í miðju bæjarins skipta mjög miklu máli varðandi vegferð og velferð íbúanna. Miðgarðinn á að verja eins og kostur er og helst stækka og skapa þar bæjar- og lystigarð er blasir við öllum þeim sem koma yfir Ölfusárbrú. Minna má á Lystigarðinn á Akureyri sem yfir 100 þús. manns heimsækja á ári. Svo og Skallagrímsgarð í Borgarnesi, Hellisgerði í Hafnarfirði, Austurvöll og Hljómskálagarðinn í Reykjavík. Þá er vert að veita því athygli að stórborgir heimsins hafa varðveitt stór græn svæði sem draga til sín margan ferðamanninn eins og t.d. Central Park í New York sem er um 4 km að lengd, Hyde Park í London sem er 2 km að stærð, Place de la Concord í París sem er 8.6 hektarar að stærð, Rauðatorgið í Moskvu og Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn.

Mjög mikilvægt er að almenn sátt ríki um skipulag svæðisins og er íbúakosning eina lýðræðislega leiðin til þess. En hér á eftir er stiklað á stóru varðandi lögin um íbúakosningu og þann möguleika að enn er hægt að halda íbúakosningu um þegar samþykkt miðbæjarskipulag.

Gr. 107 og 108 í sveitarstjórnarlögum og reglugerð nr. 155/2013 kveða á um skipulag og framkvæmd slíkra íbúakosninga. Samkvæmt þessu lögum er enn smá gluggi til þess að framkvæma slíka íbúakosningu. Þar sem bærinn samþykkti miðbæjarskipulagið 22. feb. s.l. er hægt að senda ósk um að safna undirskriftum fyrir íbúakosningu til sveitarstjórnar, en hún þarf að berast sveitarstjórninni fyrir 22. mars. n.k. eða innan fjögurra vikna frá viðkomandi samþykkt.

Eftir að ósk berst sveitarstjórninni þá hefur hún fjórar vikur til að afgreiða málið samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Ef óskin er samþykkt þá skal sveitarstjórn vinna með söfnunaraðila og tilkynna það Þjóðskrá Íslands og leiðbeina söfnunaraðila um framkvæmd og söfnun.

Samkvæmt lögunum má hefja undirskriftasöfnun strax og samþykki sveitarstjórnar liggur fyrir en eigi síðar en innan tveggja vikna. Og skal henni lokið innan fjögurra vikna frá því hún hófst. Söfnun undirskrifta er möguleg bæði rafrænt og skriflega. Sveitarstjórn leggur til undirskriftareyðublöðin en Þjóðskrá Íslands sér um rafræna skráningu.

Þegar undirskriftasöfnun er lokið sér Þjóðskrá Íslands um úrvinnslu samkvæmt lögunum og hún afhent söfnunaraðila og sveitarstjórn. Verði niðurstaðan sú að atkvæðagreiðsla skuli fara fram þá skal hún fara fram innan árs frá samþykktri ósk.

Vilja 29% kjósenda í Árborg íbúakosningu um nýsamþykkt miðbæjarskipulag? Úr því fæst ekki skorið nema íbúar taki sig saman um slíka undirskriftasöfnun.

Aldís Sigfúsdóttir verkfræðingur Selfossi.