-1.6 C
Selfoss

Fyrsta Roller Derby mótið á Selfossi

Vinsælast

Á morgun, laugardaginn 10. mars, verður í fyrsta skipti haldið Roller Derby mót í íþróttahúsinu við Sólvelli á Selfossi (íþróttahúsi Vallaskóla). Heimaliðið Ragnarök keppir þar á móti liðunum Atlanta frá Bandaríkjunum og Royal City Rollergirls frá Kanada.

Roller Derby, eða hjólaskautaat á íslensku, er grasrótaríþrótt sem er hönnuð af og aðallega stunduð af konum. Stór hluti iðkenda er hinsegin fólk, innflytjendur og konur sem hafa ekki fundið sig í öðrum íþróttum. Roller Derby býr til öruggt umhverfi þar sem jaðarhópar geta stundað hreyfingu og tilheyrt frábæru samfélagi.

Íþróttinni má lýsa sem ruðningi á hjólaskautum og er hún stunduð út um allan heim. Farið er eftir reglum WFTDA (Women’s Flat Track Derby Association) og gengur leikurinn út á það að skora sem flest stig. Brautin er sporöskjulaga og inni á henni eru fimm leikmenn úr hvoru liði hverju sinni. Fjórir af leikmönnunum eru varnarmenn og einn leikmaður er hlaupari, en hann er með stjörnu á hjálminum sínum og þannig er hægt að greina hann frá varnarmönnunum. Hlauparinn skorar eitt stig fyrir hvern varnarmann sem hann nær að komast fram hjá. Leikurinn eru tveir þrjátíu mínútna hálfleikir sem skiptast svo upp í marga tveggja mínútna leikhluta.

Nýjar fréttir