Fyrir héraðsfréttablað er 50 ára útgáfuafmæli stórviðburður. Það að lifa af í samkeppni við stóra fjölmiðla er ekki sjálfgefið og kostar gríðarlega vinnu, þrautseigju og alúð. Við Sunnlendingar eigum að vera þakklát því fólki sem hefur staðið vaktina hjá Dagskránni í gegnum árin og séð okkur fyrir fréttum úr héraði sem alla jafna komast ekki að í landsmiðlunum.
Suðurland er mikið landflæmi þar sem búa ólíkir einstaklingar í fjölmörgum sveitarfélögum og í fljótu bragði er ekki margt sem sameinar okkur annað en fögur náttúra, Njála, baráttan fyrir bættum samgöngum og Dagskráin.
Fyrir okkur sem höfum starfað í stjórnmálum er mikils virði að koma skilaboðum á framfæri á skýran og einfaldan hátt. Dagskráin hefur alltaf tekið vel á móti aðsendum greinum og séð um að lesendur geti kynnt sér baráttumál frambjóðenda, kjörinna fulltrúa og íbúa svæðisins. Það er mikilvægur þáttur í lýðræðissamfélagi.
Ég óska afmælisbarninu langra lífdaga um leið og ég þakka fyrir mig.
Unnur Brá Konráðsdóttir, Hvolsvelli.