-11 C
Selfoss
Home Fréttir Hérðasfréttablað í hálfa öld

Hérðasfréttablað í hálfa öld

0
Hérðasfréttablað í hálfa öld
Örn Grétarsson, prentsmiðjustjóri Prentmets á Selfossi.

Fyrir fimmtíu árum, nánar tiltekið 29. febrúar 1968, hóf Dagskráin göngu sína á Selfossi. Í fyrstu var hún í litlu broti og byggðist upp á dagskrá Sjónvarpsins sem hóf göngu sína í lok september 1966. Á þessum tíma þótti kærkomið að hafa dagskrá vikunnar við höndina. Auglýsendur á staðnum sáu fljótt kosti þess að auglýsa í Dagskránni en hún hefur alla tíð verði fjármögnuð með tekjum af auglýsingum og dreift ókeypis til íbúa héraðsins.

Í fyrstu var Dagskráin fjórar síður en stækkaði fljótlega í átta síður. Í kringum 1980 var brotinu breitt og blaðið stækkað upp í dagblaðsstærð. Þá var farið að birta í blaðinu fréttir, viðtöl og ýmsar greinar. Fyrst voru síðurnar fjórar en urðu svo átta sem hélst lengi vel. Miklar tækniframfarir hafa orðið varðandi vinnslu blaðsins síðustu áratugina. Í dag er blaðið allt unnið stafrænt eða þar til síðurnar fara á prentplötur og í prentun. Núverandi brot blaðsins hefur verið frá því í febrúar 2008.

Upphafið tengdist Sjónvarpinu
Margir einstaklingar hafa tengst rekstri Dagskrárinnar í gegnum tíðina. Einn af þeim er Örn Grétarsson, prentsmiðjustjóri Prentmets á Selfossi. Örn keypti, ásamt fjölskyldu sinni, í mars 1987 meirihluta í Prentsmiðju Suðurlands hf. og rekstur Dagskrárinnar með. Örn og fjölskylda hans áttu fyrirtækið til 2006 er Prentmet ehf. í Reykjavík keypti reksturinn. Örn hefur því tengst rekstri blaðsins í yfir 30 ár. Hann var tekinn talið og fyrst spurður hvernig það hafi komið til að Dagskráin hóf göngu sína.

„Það kom náttúrulega til út af Sjónvarpinu sem var nýbyrjað í desember 1966. Þá var grundvöllur fyrir blaði með sjónvarpsdagskránni fyrir heila viku. Þegar blað hefur líftíma í heila viku þá eru auglýsingar fýsilegar í svoleiðis blaði. Það sem rekur blaðið er náttúrulega auglýsingarnar,“ segir Örn.

Góður auglýsingamiðill
Í byrjun var Dagskráin lítið blað og smátt í sniðum. Fyrst var það fjórar síður í stærðinni A5, í einum svörtum lit. Blaðið var allt unnið og sett upp í blýi, bæði í lausaletri og steyptum línum. Svo smám saman stækkaði blaðið og fór mest upp í átta síður. Örn segir að staðaldri hafi þetta var verið langur renningur og að menn hafi fljótt séð að þetta var góður auglýsingamiðill. „Þarna var dagskrá sjónvarpsins náttúrulega fyrir alla vikuna. Á þessum tíma var Dagskránni dreift fyrst og fremst á Selfossi. Við dreifðum henni sjálf í verslanir, á biðstofur og þar sem fólk kom saman. Þar var þetta sett í bunkum inn. Mig minnir að þetta hafi verið um 700 eintök til að byrja með. Svo smám saman bættist í.“

Stærra blaðform
Um 1980 var Dagskránni breytt í blaðform og farið að prenta hana í dagblaðastærð. Þá fóru að koma inn fréttir, viðtöl, greinar og annað aðsent efni sem var unnið í prentsmiðjunni. Þá var Haraldur Hafsteinn Pétursson ritstjóri blaðsins en hann var stofnandi Prentsmiðju Suðurlands á sínum tíma. Árið 1983 var ráðinn sérstkur blaðamaður og hafa þeir verið nokkrir í gegnum tíðina. Eins hafa starfsmenn Prentsmiðjunnar annast efnisöflun og auglýsingar. „Í upphafi var Valdimar Bragason gerður að auglýsingastjóra, en hann og Gunnar Gunnarsson, sem vann hér lengi, komu svo m.a. að efnisöflun. Svo voru margir fastir eða reglulegir pennar eins og t.d. Guðmundur Daníelsson rithöfundur, Jón R. Hjálmarsson, Guðmundur Kristinsson, Óli Þ. Guðbjartsson, Hafsteinn Þorvaldsson og margir fleiri sem er of langt mál að telja upp.“ segir Örn.

Ný tækni með offsetinu
Fyrst þegar blaðið var í dagblaðaformi var það sett í blýi og síðunum „dröslað á milli sala“ eins og Örn segir. „Þær voru þá nálægt 20 kg hver síða og frekar óþjált að bera á milli.“ Árið 1982 var keypt offsetprentvél (Heidelberg Sord) og fljótlega upp úr því var farið að prenta blaðið í offsetprentun á Selfossi. Svo þróaðist þetta áfram. Fyrst var þetta mikið unnið í pappír og pappírsumbroti, það myndað og svo gerðar filmur. Síðan lýst yfir á prentplötur. Örn segir að þetta hafi verið svolítið flókið ferli og tekið langan tíma.

Aukin útbreiðsla
Þegar blaðið fór í dagblaðsstærð byrjaði það í fjórum síðum og var það til að byrja með. Síðan fór það yfir í átta síður og var býsna lengi í þeirri stærð. Örn segir að það hafi hentað vel, tveir formar í prentvélina og reynt að miða við að það héldi saman. „Á þessum tíma fór dreifingin að aukast og við fórum t.d. að senda í nágrannasveitarfélög okkar. Mjólkurbúið fór með blaðið á hvern sveitarbæ á sínum tíma, þegar þeir voru að keyra heim að flest öllum bæjum. Þarna um 1980 var blaðið gefið út í um 3.000 eintökum. Á 30 ára afmæli blaðsins 1988 var upplagið komið upp í 5.500 eintök.“

Tækninni fleygir fram
Örn segir að síðan hafi tæknin þróast og þetta orðið þægilegra í vinnslu. Á þessum tíma þegar tæknin var tiltölulega skammt á veg kom var mikil vinna að gefa blaðið út. „Manni finnst í dag þessi tækni sem þá var notuð heldur fornaldarleg. Eftir að tækninni fleygði fram varð þetta allt miklu einfaldara og þægilegra í vinnslu. Fyrst var blaðið svart hvítt en svo fórum við að bæta við einum lit. Þá keyptu menn auglýsingar í nokkur tölublöð sem við prentuðum þá litinn í eða 5–10 blöð í einu. Svo var svarti liturinn bara prentaður inn í það. Fyrst þegar menn vildu fá að lesa yfir það sem var búið að setja upp sendum við það með faxi sem þótti talsvert tæknilegt á þeim tíma. Fyrsta faxtækið kom hingað í kringum 1987.“

Stafræn vinnsla kemur til sögunnar
Það var ekki fyrr en 1997 sem blaðið fór að verða í fjórlit. Þá voru það fjórar síður sem voru prentaðar síðast í hverjum mánuði. Síðan eftir því sem tækninni fleygði fram fór þetta alfarið yfir í litinn, eins og blaðið er í dag. Áður var blaðið í aðeins stærra prentformi en það er í dag. Vinnsla við blaðið fór smám saman að þróast yfir í stafræna vinnslu í kringum 1995 og var orðin nokkuð mikil um aldamótin. Þá var blaðið sett upp í tölvum og það síðan keyrt beint út á filmu. Þá datt út einn liður í vinnsluferlinu sem var pappírsumbrotið. Svo þróaðist það áfram og varð allt stafrænt eins og það er í dag.

Blaðforminu breytt
Brotið eða stærðin á blaðinu var minnkuð 2007 þegar nýir eigendur komu að því. Er það sama stærð og blaði er í dag. Örn segir að sú breyting hafi aðallega verið gerð af hagkvæmnisástæðum. „Jólablöðin sem við höfum gefið út hafa alltaf verið mun veglegri og stærri og meira lagt í þau. Meira efni var safnað til dægrastyttingar yfir þennan tíma þ.e. jól og áramót. Þau gátu farið alveg upp í 32 síður sem var heilmikið átak fyrir svona lítið fyrirtæki með þessum gömlu aðferðum. Síðustu ár hefur blaðið aldrei verið undir 16 síðum og oftast 20–24 síður. Stundum 32 síður og hefur farið jafnvel upp í 48 síður.—

Ein besta dreifingin á Suðurlandi
Frá 2006 hefur Dagskránni verið dreift með Póstinum á Suðurlandi og fer blaðið inn á hvert heimili og í öll fyrirtæki í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Það fer einnig á alla stærstu þéttbýlisstaði og liggur frammi á bensínstöðvum og í stærri verslunum. Óhætt er að segja að fá ef nokkur blöð eru með jafn góða dreifingu og tengsl við íbúa í héraðinu.

Eigendur blaðsins og starfsmenn
Þegar Dagskráin hóf göngu sína í mars 1968 voru Haraldur Hafsteinn Pétursson, Jón G. Jóhannsson og eiginkona hans Guðrún Ásbjörnsdóttir á meðal eigenda blaðsins sem var rekið inn í fyrirtækinu þ.e. Prentsmiðju Suðurlands hf. Í mars 1987 keypti Örn Grétarsson og fjölskylda hans meirihluta í Prentsmiðjunni og fylgdi Dagskráin með í kaupunum. Þá var blaðið sett beint inn í prentsmiðjuna og rekið með henni og hefur svo verið síðan. Frá 1987 var Örn ritstjóri og sinnti því starfi samfleytt til 2006. Prentmet ehf. í Reykjavík, sem Guðmundur Ragnar Guðmundundsson og Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir eiga, keypti reksturinn og Dagskrána í ágúst 2006. Dagskráin fylgdi með rekstrinum þannig að Dagskráin er í eigu fyrirtækis þeirra.

Fjórir ritstjórar
Á 50 ára tímabili hafa verið fjórir ritstjórar Dagskrárinnar. Fyrst var Haraldur Hafsteinn Pétursson ritstjóri í nítján ár eða frá 1968 til 1987. Örn Grétarsson var ritstjóri frá 1987 til 2006 eða í rúm nítján ár. Magnús Hlynur Hreiðarsson var frá því í ágúst 2006 til október 2013 eða rúm sjö ár. Örn Guðnason tók við í október 2013 og er ritstjóri blaðsins í dag. Hann er búinn að vera ritstjóri í um fjögur og hálft ár.

Örn Grétarsson segir að 3–4 stöðugildi fylgi blaðinu í dag. Hann bætir við að gæfa blaðsins hafi verið að það hafi notið þess að hafa hæfileikaríku starfsfólki á að skipa. Svo sé einnig í dag.

Valdimar Bragason sem vann við að setja blaðið upp í upphafi vinnur við umbrot þess í dag 50 árum síðar. Gunnar Gunnarsson vann einnig lengi við blaðið, bæði við að setja upp og prenta ásamt því að prófarkalesa. Þá unnu Jón Jóhannsson og Guðrún Ásbjörnsdóttir við blaðið í áratugi. Emma Kristín Guðnadóttir og Hallgrímur Óskarsson unnu líka lengi við uppsetningu blaðsins.

Af núverandi starfsmönnum má nefna Kjartan Má Hjálmarsson, sem hefur séð um myndvinnslu og prófarkalestur, og Steingerði Kötlu Harðardóttur, sem sér um auglýsingamál blaðsins. Einnig vinnur Björgvin Rúnar Valentínusson við umbrot blaðsins í dag.

Eitt og annað sem kemur upp í hugann
Eins og gefur að skilja er af mörgu að taka þegar 50 ára saga Dagskrárinnar er rifjuð upp og því einungis hægt að stikla á stóru. Örn var spurður hvort eitthvað eftirminnilegt varðandi efni blaðsins kæmi upp í hugann.

„Það er auðvitað eitt og annað sem kemur upp í hugann, meðal annars er það Árborgarnafnið. Það kom fyrst fram í Dagskránni í grein sem Hafsteinn Þorvaldsson skrifaði en hann tengdi það reyndar saman við stærra svæði. Þá var inn í þessu Hveragerði, Ölfus og Flóinn. Svo er auðvitað nafn blaðsins eða Dagskráin. Það var auðvitað fyrst byggt upp á dagskrá Sjónvarpsins og var það lengi. Fyrir nokkrum árnum vorum við farnir að finna að þetta væri ekkert orðið notað sem dagskrá því auðvitað var þetta komið í textavarpið og alls staðar hægt að finna þessa dagskrá. Þannig að þörfin fyrir sjónvarpsdagskrána í Dagskránni var eiginlega liðin. Við prófuðum okkur áfram með hversu mikið þetta væri lesið með því að setja inn alls konar dagskrárliði sem voru bara bull og þvæla. Starfsmenn Prentsmiðjunnar voru t.d. sagðir vera með matreiðsluþætti í sjónvarpinu og alls konar kennslu. Þegar það komu engin viðbrögð við því sáum við að þetta væri ekki lengur eitthvað sem fólk var að reiða sig á. Þannig að því var bara hætt 1994 og það hefur enginn saknað þess,“ segir Örn.

Lengi vel voru forystugreinar í Dagskránni frá hinum og þessum vítt og breitt úr héraðinu. Örn segir að það hafi verið margir sem skrifuðu. Hann segir að margir hafi sérstaklega sótt í að fá að skrifa í blaðið í kringum kosningar. „Þá var mikil ásókn en oft í annan tíma erfitt að fá fólk til að skrifa. Það voru þó alltaf sömu aðilarnir sem voru tilbúnir að skrifa. Má þar nefna Hafstein Þorvaldsson, Jón R. Hjálmarsson, Árna Johnsen, Óla Þ. Guðbjartsson og marga fleiri.“

Á 40 ára afmæli Dagskrárinnar 2008 var bætt við undirtitli við heiti blaðsins, Dagskráin – Fréttablað Suðurlands. Þá var blaðið í raun orðið héraðsfréttablað. Efni blaðsins eru fréttir sem er unnið af starfsmönnum blaðsins og aðsent efni. Með árunum hefur upplag blaðsins stækkað og er það nú prentað í 9.400 eintökum.

Hlutverk Dagskrárinnar í dag
„Mér hefur fundist hlutverk blaðsins í gegnum tíðina vera ákveðinn punktur en það er að halda utan um hluti sem eru að gerast í héraðinu. Blaðið er því orðið ákveðin geymsla heimilda yfir það sem hefur gerst eða verið á baugi. Svo er náttúrulega markmið blaðsins að koma á framfæri því sem eru um að vera í héraðinu. Blaðið flytur fréttir og í auglýsingum eru líka fréttir. Svo er líka lykilatriði að fólk finni í blaðinu staðbundnar fréttir og umfjöllun úr héraðinu sem það finnur ekki í öðrum miðlum. Það gerið blaðið líka jafn vinsælt og það er hjá íbúunum,“ segir Örn.

Viðtal/umfjöllun: Örn Guðnason.