-1.1 C
Selfoss

Bjóða upp á eldbakaðar pizzur og góðan bjór

Vinsælast

Ölverk er staðsett í hjarta Hveragerðis og sérhæfir sig í eldbökuðum pizzum og sérbrugguðum bjór. Staðurinn opnaði sunnudaginn 28. maí 2017 og hafa viðtökurnar farið fram úr björtustu vonum. Staðsetningin í miðbæ Hveragerðis við aðalgötuna, í hjarta Gullna hringsins, skiptir sköpum, vilja þau Laufey Sif og Elvar, sem eru eigendur Ölverk ásamt Ragnari Karli, meina.

„Það er mikill ferðamannastraumur sem fer hér um, bæði sem er að fara Gullna hringinn og einnig þeir sem að sækja í Reykjadalinn. Yfir sumartímann er þetta mikill fjöldi og höfum við, í hvaða veðri sem er, frá opnun, tekið á móti mörgum sem annað hvort hafa lokið eða eru að leggja af stað í göngu upp í heita lækinn í Reyjadal. Margir okkar viðskiptavina eru því ferðamenn, innlendir og erlendir, en heimamenn og nærsveitungur hafa þó verið okkar stoð og stytta og erum við þeim afar þakklát fyrir þær góðu móttökur sem Ölverk hefur fengið. Allt starfsfólkið okkar á einnig skilið miklar þakkir fyrir að skapa góða stemningu á staðnum og er frábært að sjá hve ánægðir viðskiptavinir okkar eru með heildarupplifun sína á Ölverki,“ segir Laufey Sif.

Framleiða úrvals handverksbjór
Ölverk stendur fyrir „eldbakaðar pizzur og góðan bjór“. Á staðnum er svokallað „microbrugghús” eða örbrugghús þar sem framleiddur er úrvals handverksbjór. Elvar Þrastarson, einn eigandanna, er bruggmeistar og bruggar hann allan bjórinn á staðnum. Þau eru með átta krana og eru ávallt sex af þeim með bjór úr þeirra eigin framleiðslu. Svo detta inn við og við skemmtilegir gestabjórar og samstarfsbjórar héðan og þaðan. „Okkur finnst gaman að vinna með öðrum smærri eða stærri brugghúsum og fá þannig að komast í snertingu við nýja strauma og stefnur. Bruggarasamfélagið er lítið og er samheldnin mikill. Flest brugghúsa landsins komu t.d. saman á Bjórhátíð KEX fyrir skömmu og var góð stemning á þeirri hátíð.“ segir Elvar.

Mörgum líkar vel við eldbökuðu pizzurnar
Á Ölverki geta gestir komið í drykk og smárétti. Má þar nefna handgerða ostabolta, bretzel og bjórostadýfu, beikonvafðar döðlur eða ostafylltar brauðstangir, nú eða farið beint í handverkspizzurnar sem mikið er lagt í; þunnar, kríspí og eldbakaðar. Laufey segir að deigið sé gert á tveimur dögum og að þau noti afar lítið ger og láti deigið frekar hefast á löngum tíma. Deigið er kaldhefað og fer þar af leiðandi aðeins betur í maga. Eldofninn fluttu þau inn frá Ítalíu og bakast pizzurnar við mjög háann hita. Með eldviðnum sem þau nota kemur þetta smoky-bragð af pizzunni sem mörgum líkar svo vel við.

Gæða hráefni og grillsósan vinsæla
Laufey segir að þau leggi mikla áherslu á góð gæði þeirra hráefna sem þau noti. „Af kjötmeti erum við með kjúkling, skinku, hráskinku, beikoni og pepperóni. Á móti erum við líka með vinsælar veganpizzur sem koma með eða án veganosts þar sem söl úr Ölfussi kemur við sögu. Einnig allt það grænmeti sem huginn girnist, sem og ávextir eins og banana, döðlur og auðvitað ananas. Gillasósan okkar, sem upphaflega kom bara með pizzu númer 5, hefur notið gríðarlega vinsælda og er þó nokkuð um að hún sé pöntuð með öðrum pizzum. Aldrei að vita nema hún fari hreinlega að sjást út í búðum,“ segir Laufey.

Elvar góður að para saman bjór og mat
„Elvar hefur ávallt verið mikið í því að prófa allskyns nýjungar er tengjast mat og mikið verið að para saman bjór og mat. Því má segja að það sé hans sérgrein, en bragðlaukarnir hans eru mjög áhugaverðir og gaman að geta ávallt boðið viðskiptavinum okkar upp á það besta og skemmtilegar nýjungar í bjór og pizzu.“

Aldrei ferskari bjór
Varðandi bjórinn segir Laufey að þau séu enn sem komið er einungis að framleiða og selja bjórinn á staðnum. Bjórinn geyma þau í stórum tönkum þó þau geti sett hann á bjórkúta. Þannig ferðast hann mjög stutta vegalengd til kúnnans og hefur aldrei séð dagsljós eða komist í snertingu við súrefni þegar hann er drukkinn á staðnum. „Þannig verður bjór eiginlega aldrei ferskari en nákvæmlega hér vegna þess að hann hefur ferðast í mesta lagi fimm metra þegar honum er dælt ofan í bjórglasið. Hitastig bjórsins fer heldur aldrei yfir sex gráður eftir að hann er tilbúinn svo gæðin eru mikill og dómarnir sem hann hefur hefur verið mjög jákvæðir.“

Vinsælar bjórkynningar
„Við hófum bjórkynningar fyrir stærri og smærri hópa í innri salnum okkar í vetur en með vorinu verða nokkrum sinnum í viku opnar kynningar sem ekki þarf þá að bóka sig í fyrirfram. Í bjórkynningunum okkar stiklum við á bjórsögu Íslands, jarðhitavirkni Hengilsvæðisins og nýtingu þeirrar orkuauðlindar hér á Íslandi. Aðaláherslan liggur svo í skemmtilegri og fræðandi frásögn um bjórframleiðsluferlið okkar þar sem við nýtum jarðgufuna í framleiðsluferlinu og auðvitað fá gestir að smakka á fjórum Ölverk bjórtegundum meðan á kynningunni stendur.“

Vaxandi áhugi á bjórmenningu
Hefðbundin bjórkynning varir í 40 mínútur og hentar jafnt fyrir hörðustu bjóráhugamenn sem þá sem vita minna en vilja fræðast um þennan undraheim. Laufey segir að þau finni fyrir vaxandi áhuga á bjórmenningu á Íslandi og það megi m.a. sjá í þeim fjölda brugghúsa sem nú eru starfsrækt um allt land. „Við gleðjumst yfir fjölbreytninni og hugmyndaauðginni sem fylgir þessari atvinnugrein. Það sem við höfum boðið upp á fyrir bjórklúbba og heimabruggara eru örnámskeið og einnig kynningar fyrir lengra komna. Það verður spennandi að sjá hvernig það vindur upp á sig. Við höfum einnig verið að prófa okkur áfram með ýmsa aðra viðburði eins og bjórbingó og aðra viðburði tengda hátíðisdögum hér í bænum. Svo eru tilboð take-away á virkum dögum alltaf vinsæl sem og önnur sérstök tyllidagstilboð,“ segir Laufey.

Nýjar fréttir