Á dögunum heimsótti Helga Jóhannesdóttir, fata- og textílkennari í Fjölbrautaskóla Suðurlands, Konubókastofu á Eyrarbakka. Helga afhenti þar Önnu Jónsdóttur, forstöðukonu, bók sína LITAGLEÐI, sjálfsnámsbók í litafræði, sem byggir m.a. á reynslu Helgu af fatahönnun í íslenskum ullariðnaði og af verkefnagerð í FSu og öðrum menntastofnunum.
Bókin Litagleði er fræðirit um litafræði sem gagnast jafnt í hönnun sem listgreinum og sem almennar upplýsingar fyrir alla þá sem vilja dýpka skilning sinn á litasamsetningum. Litafræði er nauðsynleg þeim sem fást við ljósmyndun, myndlist, mynsturgerð, fatasaum og fleira mætti telja. Bókin byggir meðal annars á litafræðum svissneska expressíonistans Johannesar Itten (1888–1967) sem setti fram andstæðukenningu um liti. Fjallað er um samsetningu lita, frumliti, hinn tólfskipta litahring og hvernig lesa beri í liti. Þá er sérstakur kafli helgaður því hvernig unnið er með liti og annar hvernig fá má innblástur í því er varðar liti og litaval. Aftast í ritinu eru svo yfirlitslistar er varða fólk, hugtök og heimildir.