Breyting á aðal- og deiliskipulagi miðbæjar Selfoss var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Árborgar fimmtudaginn 22. febrúar sl. með sjö atkvæðum bæjarfulltrúa B-, D- og Æ-lista, gegn tveimur atkvæðum bæjarfulltrúa S-lista.
Aðalskipulagsbreytingin snýr einkum að því að fjórði armurinn komi á hringtorgið, Tryggvatorg. Deiliskipulagstillagan snýr að uppbyggingu verslunar-, þjónustu- og íbúðarhúsnæðis miðsvæðis á Selfossi. Þar er gert ráð fyrir nýrri götu inn frá hringtorginu í átt að Sigtúnsgarði og götu sem liggur frá Kirkjuvegi að Sigtúni. Meðfram þessum götum munu standa hús þar sem ætlunin er að byggja upp fjölbreytta starfsemi fyrir íbúa sveitarfélagsins og gesti
„Næsta skref í skipulagsferlinu er umfjöllun Skipulagsstofnunar um tillögurnar. Að fenginni samþykkt stofnunarinnar og auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, sem markar formlega gildistöku skipulagsins, verður unnt að gefa út framkvæmdaleyfi og hefja framkvæmdir. Sveitarfélagið hefur gengið frá samningum við Sigtún þróunarfélag um uppbyggingu á svæðinu. Mun félagið annast alla gatnagerð, veitulagnir og yfirborðsfrágang, auk þess að byggja húsin,“ segir Ásta Stefánsdóttir hjá Árborg.
Ætlunin er að uppbygging á svæðinu verði í tveimur áföngum. Í fyrri áfanga er gatnagerð á svæðinu og uppbygging þrettán húsa og tveggja tengibygginga við þá götu sem gengur til suðurs frá hringtorginu.
Frestur framkvæmdaaðila til að hefja framkvæmdir er 12 mánuðir frá gildistöku skipulagsins, en vænta má þess að framkvæmdir fari mun fyrr af stað en það, þar sem þegar hefur verið samið við verktaka um gatnaframkvæmdir og húsbyggingar. Verkinu skal síðan lokið innan fjögurra ára.
Í fyrri verkhluta er byggingarmagnið um 1.400 fermetrar, hluti af því er endurbygging gamla mjólkurbúsins á Selfossi, og nokkurra annarra húsa sem m.a. stóðu á því svæði sem uppbyggingin tekur til.