-6.8 C
Selfoss

Kvenfélag Selfoss 70 ára í mars

Vinsælast

Kvenfélags Selfoss hefur verið aðili að Sambandi sunnlenskra kvenna frá árinu 1949. Hafa félagar í Kvenfélagi Selfoss tekið virkan þátt í starfi SSK með þátttöku í stjórn og nefnum.

Kvenfélag Selfoss var stofnað í mars 1948. Árið 2018 er því 70. afmælisár félagsins og verður þess minnst með viðburðum á árinu. Þann 4. mars verður vegleg afmælishátíð á Hótel Selfoss og 19. apríl, sumardaginn fyrsta, er áformað að setja upp sýningu á munum í eigu félagsins ásamt því að halda málþing um stöðu kvenfélagskonunnar. Síðast en ekki síst gefur Kvenfélag Selfoss út sögu félagsins og mun hún koma út fyrri hluta ársins, söguritari er Sigrún Ásgeirsdóttir, félagi í KS. Frá stofnun kvenfélagsins hefur verið haldið mjög vel utan um gögn þess, t.d. voru varðveitt bréf, myndir og fundargerðir sem hefur nýst vel við ritun sögunnar.

Í ársbyrjun 2018 telur Kvenfélag Selfoss rúmlega 100 félaga og er töluverð gróska í starfi þess. Á síðasta ári gengu 12 konur í félagið auk þriggja kvenna sem bættust við í janúar. Formaður er Helga Hallgrímsdóttir. Haldnir eru átta reglulegir félagsfundir á ári auk þess sem boðið er upp á ýmsa aðra viðburði. Nefna má spjall- og hugmyndakvöld sem eru haldin á tveggja til þriggja vikna fresti í vetur, margar konur mæta með handavinnu. Svo er farið í lengri og skemmri ferðir, t.d. er oft farið saman á baðstofukvöldin sem SSK stendur fyrir. Nú er að fara af stað leshringur í félaginu þar sem lesin verður bókin Kona þriggja eyja. Einnig heldur Kvenfélag Selfoss námskeið fyrir unglinga nú á vorönninni sem hentar fyrir 5.–10. bekk. Fyrsta námskeiðið var 16. janúar og gekk það mjög vel. Rakel Þórðardóttir, félagi í KS, hefur skipulagt þessi námskeið og heldur utan um þau. Fjáröflun er að mestum hluta útgáfa dagbókarinnar Jóru sem gefin hefur verið út í 26 ár. Starf félagins er kynnt á opinni „facebook“-síðu Kvenfélags Selfoss.

Guðrún Þóranna Jónsdóttir, varaformaður KS

Nýjar fréttir