3.9 C
Selfoss

Kvenfélagið Fjallkonan undir Austur-Eyjafjöllum

Vinsælast

Kvenfélagið Fjallkonan er stofnað 1939 og er því að verða 80 ára gamall félagsskapur. Félagið er staðsett í gamla Austur-Eyjafjallahreppi. Í félaginu eru 15 konur og flest allar vel virkar. Starfsemin hefur þó dregist saman eftir því sem fólki í sveitinni fækkar. Við leggjum áherslu á að hittast helst á tveggja vikna fresti yfir veturinn. Oft er tilgangurinn aðeins að hittast og spjalla í stutta stund yfir kaffibolla. Yfirleitt er farið í ferðalag á vorin og alltaf út að borða 19. júní. Eins förum við stundum saman í leikhús og bjóðum þá gjarna mökum að koma með okkur. Nú síðast var farið á bóndadaginn að sjá sýninguna Ellý í Borgarleikhúsinu. Þessar samverustundir þjappa okkur saman og í litlu félagi eins og okkar verða félagar meira eins og ein fjölskylda.

Það að vera einnig félagar í Sambandi sunnlenskra kvenna gefur okkur gott tækifæri til að kynnast konum á sambandssvæðinu og víkka út sjóndeildarhringinn. Þar eru ýmis góð verkefni í gangi eins og að prjóna nýburagjafir til að bjóða nýja einstaklinga velkomna í heiminn og selja fallega glerengla til styrktar sjúkrahúsinu á Selfossi. Meginverkefnið er auðvitað hjá okkur eins og öðrum kvenfélögum að hlúa að samfélaginu og láta gott af okkur leiða. Nú erum við ásamt öðrum kvenfélögum í Rangárþingi eystra að sauma innkaupapoka sem dreift verður á heimili og eiga að nýtast til að sporna gegn plastsóun. Það verkefni er í samstarfi við Rangárþing eystra. Einnig ætlum við að fá Rauða Krossinn til að halda skyndihjálparnámskeið fyrir okkur og aðra á svæðinu sem áhuga hafa á í vor. Nokkrar konur í félaginu eru á lista hjá Rauða Krossinum og eru tilbúnar að aðstoða ef opna þarf fjöldahjálparstöð vegna slyss eða annarrar váar.

Með kvenfélagskveðju,
Magðalena K. Jónsdóttir, formaður Fjallkonunnar.

Nýjar fréttir