-0.5 C
Selfoss
Home Fréttir Þrjátíu umferðaróhöpp í liðinni viku

Þrjátíu umferðaróhöpp í liðinni viku

0
Þrjátíu umferðaróhöpp í liðinni viku

Þrjátíu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu á Suðurlandi í síðustu viku. Í fimm þeirra urðu slys á fólki en þó ekki alvarleg. Ökumaður sem hugðist, þann 13. febrúar sl., aka fram úr annarri bifreið, á Suðurlandsvegi skammt vestan Kúðafljóts, rak bíl sinn í horn bifreiðarinnar sem hann hugðist aka fram úr og lenti út af vegi og valt. Farþegi í bíl hans kenndi eymsla í öxl en aðrir aðilar máls eru ómeiddir. Sama dag valt bifreið á Suðurlandsvegi við Mókeldu.

Ökumaður og farþegi hlutu minniháttar meiðsl af veltunni. Bifreiðin reyndist ótryggð og eins var um þrjár aðrar sem fundust í eftirlitsferðum um umdæmið í vikunni. Skráningarnúmer þessara bifreiða voru fjarlægð.

Ökumaður fólksbifreiðar var sviptur ökurétti, á vettvangi brots, þann 17. febrúar s.l. þegar hann ók bifreið sinni með 155 km/klst hraða á þjóðvegi 1 við Hóla í Sveitarfélaginu Hornafirði þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst. Ökumaðurinn reyndist erlendur ferðamaður frá Hong Kong og greiddi sá sektina á staðnum og annar tók við akstrinum. Krap var milli hjólfara á veginum þar sem þetta var og hættan af þessu aksturslagi augljós. Sextán aðrir ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu á tímabilinu.

Einn ökumaður var stöðvaður grunaður um að aka undir áhrifum fíkniefna þann 14. febrúar sl. á Selfossi.

Úr dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.