1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Örstutt af „forréttindum“ kirkjunnar

Örstutt af „forréttindum“ kirkjunnar

0
Örstutt af „forréttindum“ kirkjunnar
Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur í Hruna.

Ég þakka viðbrögð Álfheiðar Eymarsdóttur, varaþingmanns Pírata, í síðustu Dagskrá við grein minni um aðskilnað ríkis og kirkju. Fáeinar athugasemdir eftir lesturinn:

Afglapar við samningaborðið?

Við samningsgerðina 1997 var eignarréttur kirkjunnar á þeim kirkjujörðum sem ríkið tók yfir óumdeildur hjá báðum samningsaðilum, ríki og kirkju. Álfheiður telur í grein sinni að kirkjan hafi áður verið búin að selja ríkinu jarðirnar og að nú blasi sú vá fyrir dyrum að ,„kirkjan eigi jafnvel eftir að selja okkur eignirnar í þriðja skiptið“. Sé þetta raunin þá hefur ríkisvaldið heldur betur samið illa af sér árið 1997 og hæpið að kenna kirkjunni um það. Það breytir því hins vegar ekki að samningar skulu standa. Ríkið greiðir fyrir land sem það fékk afhent frá kirkjunni. Forréttindi? Varla. Þarna erum við bara að tala um að standa við sitt í gildandi samningi á milli tveggja aðila. Vilji annar hvor aðilinn endurskoða samninginn eða segja honum upp þá þarf að setjast niður og semja upp á nýtt. Ríkisvaldið fyrir hönd almennings í landinu og kirkjan fyrir hönd tæplega 70% þjóðarinnar.

Eignarréttarrannsókn?

Vangaveltur um það hvernig kirkjan eignaðist jarðirnar í upphafi eiga fullan rétt á sér en eftir sem áður stendur eignarrétturinn óhaggaður. Ef ætlunin er að leggja upp í rannsóknarleiðangur á því hvernig þinglýstar eignir einstaklinga, stofnana og lögaðila eru til komnar með það fyrir augum að draga í efa eignarrrétt viðkomandi, eða jafnvel svipta hann eignarréttinum, þá verður það að teljast nýstárleg vegferð í okkar samfélagi. Fróðlegt yrði að sjá hverjir skipuðust þar til forystu.

Villandi tal um trúfélagsaðild

Þá er það villandi og beinlínis rangt sem kemur fram í grein Álfheiðar að allir Íslendingar séu skráðir í þjóðkirkjuna við fæðingu og að sóknargjöld fólks renni sjálfkrafa til kirkjunnar nema til úrsagnar komi. Börn fylgja trúfélagsaðild foreldra sinna. Séu foreldrarnir báðir utan trúfélaga þá verður barnið það sjálfkrafa líka. Ef foreldrar (í hjúskap eða skráðri sambúð) tilheyra ekki sama trú- eða lífskoðunarfélagi er barnið ekki skráð í neitt trúfélag. Þetta þýðir að ef aðeins annað foreldrið er skráð í þjóðkirkjuna fylgir barnið ekki með. Það eru nú öll forréttindi þjóðkirkjunnar þegar kemur að sóknargjöldunum.

Sóknargjöld í þína heimabyggð!

Að lokum tek ég undir hvatningu Álfheiðar um að við ráðstöfum sóknargjöldum okkar að vild. Vert er þó að minna á að séum við skráð utan trúfélaga þá renna sóknargjöldin beint til ríkisins. Ég hvet frekar til þess að þau nýtist til uppbyggingar á fjölbreyttu kirkju- og menningarstarfi í heimahögunum sem stendur öllum opið, endurgjaldslaust.

Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur í Hruna.