5 C
Selfoss
Home Fréttir Ferðast um heiminn í gegnum skáldsöguna

Ferðast um heiminn í gegnum skáldsöguna

0
Ferðast um heiminn í gegnum skáldsöguna
Mary (Marsden) Ellertsson

Mary (Marsden) Ellertsson, lestrarhestur Dagskrárinnar, er húsmóðir á Selfossi og áhugamanneskja um garðrækt og ver miklum tíma sumarsins úti í garði. Hún lærði myndlist í Wales í upphafi áttunda áratugarins en fluttist þaðan til München í Þýskalandi þar sem hún vann við að taka samkvæmisljósmyndir meðal annars á Októberfest. Þar kynntist hún eiginmanni sínum Ægi Pétri Ellertssyni kennara við FSu og fluttust þau til Íslands árið 1994. Mary var um tíma formaður Garðyrkjufélags Árnesinga en auk garðyrkjunnar hefur hún mikinn áhuga á matreiðslu, gönguferðum og dansi.

Hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Ég les mun meira á veturna en á sumrin og helst uppi í rúmi á kvöldin og oft tek ég mér tíma um hádegisbil til að lesa nokkra kafla. Ég les um það bil tvær bækur á viku ýmist á ensku, íslensku eða þýsku. Af og til reyni ég við bækur á frönsku. Ég les oft tvær bækur í einu sem mér finnst að leysi vandann við að ákveða hvora ég á að lesa á undan. Oftast kaupi ég bækur í Góða hirðinum og fæ oft að heyra heima hjá mér: Hvar ætlarðu að koma þessum bókum fyrir? Lausnin á því vandamáli er að gefa þær til annarra eftir lestur.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Núna er ég að lesa Gone eftir Jonathan Kellerman sem er glæpasaga og svo bók Tobbu Marinós 20 tilefni til dagdrykkju sem ég les á daginn. Ég var að lesa Tschickk eftir Wolfgang Herrndorf sem fjallar um tvo fjórtán ára stráka í sumarfríi sem fara í bíltúr á stolinni Lödu um Þýskaland. Þeir hafa ekki skipulagt neitt fyrirfram en lenda í ýmsum ævintýrum og hitta ýmsa furðufugla. Þeir átta sig til dæmis á því á bensínstöð að þeir eru of ungir til að kaupa bensín og þurfa því að stela slöngu til að geta tappað af öðrum bílum.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Því er fljótsvarað. Skáldsögur og bækur um garðyrkju og matreiðslu. Mér finnst gaman að ferðast um heiminn í gegnum skáldsöguna.

Býrðu yfir áhugaverðri lestrarminningu?
Það eru tvær bækur sem ég vil nefna í því sambandi. Sú fyrri er eftir Jean Giono Der Mann der die Bäume pflanzt sem kom út í kringum 1950. Hún er bæði á frönsku og þýsku og segir frá fjárhirði í Provence sem plantar eikarfræjum á eyðilegri hásléttu. Eftir nokkra áratugi er afraksturinn mikilfenglegur eikarskógur sem sýnir að margt smátt gerir eitt stórt. Einföld og afskaplega falleg saga. Sú seinni Conversations with my Gardener eftir Henri Cueco og fjallar um vináttu listamanns við garðyrkjumanninn hans í franskri sveit. Báðir mennirnir eru farnir að eldast og ræða saman um lífið, myndlist, garðyrkju og ekki síður um heilsuna.

Hver er uppáhalds barnabókin þín?
Bækur J. R. R. Tolkien Hringadróttins saga og The Silmarillion. Ég elska þennan risastóra heim sem Tolkien skapaði með sögum sínum, tungumáli, fólki og þessi mikla ævintýri um að bjarga heiminum með því að tortíma hringnum.

Hefur einhver bók haft sérstaklega mikil áhrif á þig?
Það var bók sem ég las í fyrravetur eftir Jan-Philipp Sendker Das Herzenhören (Að hlusta á hjartsláttinn) sem segir frá konu í Bandaríkjunum sem finnur 40 ára gamalt ástarbréf föður síns. Hann hvarf nokkrum árum áður í Austurlöndum fjær. Hún ferðast að lokum til þorps í norðurhluta Burma í leit að konunni sem sendi bréfið og fær smátt og smátt mynd af uppeldi föður síns og kynnist fólkinu sem þekkti hann. Hún kemst að því að hann var blindur en hún vissi það aldrei því hann hafði lært að fela þá fötlun sína.

En að lokum Mary, er til líf án bóka?
Alls ekki. Ég þarf alltaf að hafa bók eða bækur við höndina. Bækur gefa svo margt. Maður ferðast í gegnum bækur og kynnist svo mörgu í öðrum löndum. Ég les ekki rafbækur. Ég þarf að hafa alvöru bækur í höndunum, helst kiljur og svo finnst mér skipta máli að lestri loknum að deila þeim með öðrum, gefa þær frá mér og setja þær í skiptibókahillur til dæmis í bókaskápinn á Hótel Selfossi nálægt Riverside Spa. Þar eru einkum erlendar bækur. Ég braut gleraugun mín um jólin þar sem ég lagðist á þau þegar ég var að lesa. Til allrar hamingju var hægt að líma þau aftur saman.