2.3 C
Selfoss

Rúrí kynnir nokkur þekkt verk í Listasafni Árnesinga

Vinsælast

Rúrí hefur lengi verið einn þekktasti myndlistarmaður landsins. Laugardaginn, 17. febrúar nk. kl. 14:00 fjallar hún um nokkur valin verk í Listasafni Árnesinga. Hún sýnir myndir og vídeó af verkum sem snerta samtímann og ræðir við gesti um þau, en Rúrí dvelur um þessar mundir í listamannahúsinu Varmahlíð í Hveragerði.

Frá upphafi ferils síns hefur Rúri vakið eftirtekt og sýningarferill hennar er umfangsmikill, bæði einka- og samsýningar, hér á landi sem á alþjóðlegum vettvangi og útilistaverk eftir hana hafa verið sett upp á Íslandi og víðar í Evrópu. Verk hennar eru að finna í safneignum fjölmargra einka og opinberra safna innanlands sem utan og árið 2011 gaf þýska listabókaforlagið Hatje Cantz út yfirgripsmikla bók um Rúrí. Hún hefur einnig notið ýmissa viðurkenninga, m.a. verið fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2003.

Myndlist Rúríar er hugmyndafræðilegs eðlis og verk hennar vekja spurningar um tilvistarleg málefni, náttúruna og tímahugtakið og þó að sjá megi staðbundna tengingu þá er tilvísunin hnattræn. Verkin eru sett fram með með margvíslegri tækni, svo sem skúlptúrar, innsetningar, margmiðlunarverk, gjörningar, bókverk, kvikmyndaverk, vídeóverk, ljósmyndaverk, hljóðverk, blönduð tækni, tölvuvædd og gagnvirk verk.

Verk eftir Rúrí hafa nokkrum sinnum verið sýnd á samsýningum í Listasafni Árnesinga og fyrir tveimur árum var þar sett upp stór sýning á verkum hennar. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir

 

Vocal VI. Ljósmynd: Marc Müehlberger.

Nýjar fréttir