-0.5 C
Selfoss

Óvissa um fjármögnun vegna breikkunar vegarins á milli Hveragerði og Selfoss

Vinsælast

Svanur G. Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Selfossi, var spurður út í helstu verkefni Vegagerðarinnar á Suðurlandi á þessu ári. Fyrst lá beinast við að spyrja um breikkun vegarins á milli Hveragerðis og Selfoss.

„Það er enn óvissa um fjármögnun framkvæmda á Suðurlandsvegi á milli Hveragerðis og Selfoss. Undirbúningur fyrir framkvæmdirnar, þ.e. veghönnun og samningar við landeigendur eru í gangi. Stefnt er að því að verkhönnun klárist um mitt ár og vonandi klárast samningar við landeigendur einnig á svipuðum tíma,“ segir Svanur.

Svanur G. Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Selfossi. Mynd: ÖG.

Hvað með aðrar nýframkvæmdir á Suðurlandi?
„Framkvæmdir við 5 km kafla á Grafningsvegi efri hjá Nesjavallavirkjun og til austurs verða boðnar út í mars/apríl og ætti það að klárast fyrir veturinn. Svo er stefnt að því í ár að byrja á Reykjavegi á milli Biskupstungnabrautar og Laugarvatnsvegar. Það er 7 km vegur og ein brú á honum. Hæðarlegan verður löguð og hann breikkaður. Einnig verða tvær krappar beygjur teknar af og hann aðeins lagaður. Væntanlega verður byrjað á að bjóða út framkvæmdir við nýja brú á Fullsæl. Þetta eru svona helstu nýframkvæmdir sem eru á döfinni hjá okkur.“

Svanur segir að einnig verði farið í styrkingu Biskupstungnabrautar og Laugavatnsvegar. „Síðastliðið haust var boðin út styrking á Laugarvatnsvegi frá Laugarvatni til suðurs. Það eru einhverjir 4 kílómetrar. Síðan er það Biskupstungnabraut en það hafa verið í fréttum kaflar fyrir ofan Reykholt sem eru illa farnir. Meiningin er að fræsa þá upp og styrkja og leggja bundið slitlag á þá. Vonandi náum við að laga það allt saman. Þetta er svona það helsta en svo verður unnið að yfirlögnum á malbiki og klæðningu víðs vegar um allt svæðið en það er ekki búið að ákveða alveg alla kaflana í því.“

Varðandi brú á Ölfusá segir Svanur að hönnunarteymi sé búið að vera að vinna að hönnun á brúnni. „Við erum með bæði erlenda og innlenda ráðgjafa í því. Þetta er þannig séð unnið í rólegheitum því það er ekki alveg komið að þessu. Það hefur verið gengið út frá því að fara í þetta þegar breikkuninni á milli Hveragerðis og Selfoss er lokið. Varðandi veginn milli Hveragerði og Selfoss ræðst framkvæmdatíminn mikið af því hvernig fjármögnunin verður. Það má þó gera ráð fyrir að það taki a.m.k. þrjú jafnvel fjögur ár, myndi maður halda. Varðandi brúna er talað um að það sé svona ca. þriggja ára verkefni. Þessar framkvæmdir eru ekki komnar á tímasettar áætlanir þó þær séu í undirbúningi. Það er vegáætlun í gildi sem var samþykkt fyrir kosningar 2016 en henni hefur ekki verið framfylgt, þar sem fjárlög hafa ekki verið í samræmi við hana. Vegurinn á milli Hveragerðis og Selfoss var inn á 4 ára áætlun en það er engin 12 ára áætlun í gildi í raun og veru þó hún hafi verið lögð fram þá. Fjárlögin voru ekki í takt við þessa áætlun. Þetta er þó komið inn á drög að 12 ára áætlun sem var lögð fram á þinginu fyrir nokkrum árum en ekki samþykkt.“ segir Svanur.

Nýjar fréttir